Innlent

Greinir á um hvort að starfs­maðurinn hafi verið trúnaðar­maður

Kjartan Kjartansson skrifar
Starfsmaðurinn sem um ræðir var trúnaðarmaður hlaðmanna á Reykjavíkurflugvelli, að sögn Eflingar. Því er Icelandair ekki endilega sammála.
Starfsmaðurinn sem um ræðir var trúnaðarmaður hlaðmanna á Reykjavíkurflugvelli, að sögn Eflingar. Því er Icelandair ekki endilega sammála. Vísir/Vilhelm

Icelandair er ekki sammála stéttarfélaginu Eflingu um að starfsmaður sem var látinn taka poka sinn hafi verið trúnaðarmaður þegar til uppsagnarinnar kom. Efling ætlar að stefna Icelandair vegna uppsagnarinnar.

Í tilkynningu frá Eflingu í morgun kom fram að félagið ætlaði að höfða mál fyrir héraðsdómi og félagsdómi vegna uppsagnar Ólafar Helgu Adolfsdóttur, trúnaðarmanns hlaðmanna Icelandair á Reykjavíkurflugvelli.

Fullyrt er að Ólöfu Helgu hafi verið sagt upp á sama tíma og hún átti í viðræðum við fulltrúa Icelandair um réttindamál starfsmanna. Hún hafi verið trúnaðarmaður hlaðmanna frá 2018. Engin skýring hafi verið gefin á uppsögninni en yfirmenn hafi tjáð fyrrverandi samstarfsmönnum hennar að hún hefði gerst sek um alvarlegan trúnaðarbrest í starfi.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, véfengir að Ólöf Helga hafi í raun verið trúnaðarmaður þegar henni var sagt upp störfum í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis.

„Staðreyndin er sú að Icelandair er ósammála túlkun Eflingar og aðila greinir á um ákveðin efnisatriði málsins, svo sem það að viðkomandi starfsmaður hafi verið trúnaðarmaður þegar til uppsagnar kom,“ segir Ásdís Ýr.

Icelandair harmi að Efling hafi ákveðið að reka málið í fjölmiðlum. Fyrirtækið geti að öðru leyti ekki tjáð sig um einstök starfsmannamál opinberlega. Þetta tiltekna mál sé „í farvegi“.

Efling boðaði í tilkynningu sinni að félagið ætlaði að vekja athygli almennings á framgöngu Icelandair og Samtaka atvinnulífsins í máli Ólafar Helgu. Þannig hefði vefsíða verið opnuð um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×