Sérfræðingar Veðurstofu Íslands könnuðu aðstæður í Útkinn í dag og töldu þeir ljóst að verulega hefði dregið úr skriðuhættu, að því er segir í tilkynningu almannavarna.
Vegurinn um Útkinn er þó enn lokaður fyrir almennri umferð þar sem talin er hætta á að blautur jarðvegur renni inn á veginn. Íbúum er jafnframt ráðið frá því að fara um veginn í myrkri. Þeir fá fylgd björgunarsveita heim til sín ef þeir kjósa að snúa heim í kvöld.
Rýmingu í Kinn var aflétt fyrr í dag með vísan til þess að vatn í hlíðum hefði minnkað mikið frá því á sunnudag þrátt fyrir mikla rigningu síðustu daga. Engar skriður hafi heldur fallið á þessu svæði í hrinunni.