Þar á meðal má telja meinta ósiði líkt og að hrækja á götuna, reykingar utan skilgreindra reykingasvæða, óvandaðan viðskilnað við reiðhjól og brot á sóttvarnarreglum um nálægð milli fólks.
Um var að ræða tilraunaverkefni, en notkun vélmennanna, sem kallast Xavier, bætti enn í áhyggjur borgarbúa af yfirgripsmiklum og alltumlykjandi eftirlitsaðgerðum yfirvalda gegn íbúum sem telja um 5,5 milljónir.
Í frétt Guardian segir að um 90 þúsund eftirlitsmyndavélar séu staðsettar víða um borgina auk þess sem gerðar hafi verið tilraunir með ljósastaura sem búnir eru andlitsauðkennisbúnaði til að bera kennsl á einstaklinga. Þá hafi borgarar lítið um það að segja hvernig farið er með persónugreinanleg gögn þeirra, til dæmis þau sem falla til vegna Covid-smitrakningar.
Sagt er frá öðru af tveimur Xavier vélmennunum sem rúllaði upp að hópi eldri borgara sem var að fylgjast með skákviðureign utandyra, beindi að þeim myndavél og kallaði hátt og snjallt með sinni róbotaröddu:
„Haldið meters fjarlægð. Ekki vera fleiri en fimm saman í hóp.“
Þá er haft eftir Frannie Teo, vegfaranda sem gekk fram á vélmenni í verslunarmiðstöð, að þau veki upp óþægilegar skírskotanir til dystópískrar framtíðarsýnar: „Þetta minnir á Robocop.“
Réttindafrömuðurinn Lee Yi Ting sagði að vélmennin væru enn ein lausnin sem yfirvöld notuðu til að hafa taumhald á þegnum sínum.
„Þetta byggir allt undir þá tilfinningu að fólk þurfi að gæta að orðum sínum og gjörðum í Singapúr, langt umfram það sem viðgengst í öðrum löndum.“
Yfirvöld í Singapúr verja hins vegar þessar aðgerðir og bera fyrir sig manneklu. Vélmennin gætu vegið upp á móti skorti á lögreglufólki á götum borgarinnar.