Innlent

„Held það geri sér enginn grein fyrir því hversu mikill hávaðinn er“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Landeigendur á Álfsnesi eru ósáttir við að borgaryfirvöld ætli að tryggja áframhaldandi starfsemi skotsvæðisins í Álfsnesi.
Landeigendur á Álfsnesi eru ósáttir við að borgaryfirvöld ætli að tryggja áframhaldandi starfsemi skotsvæðisins í Álfsnesi. Vísir/Egill

Íbúar í Kollafirði segja það sæta furðu hve hart borgaryfirvöld gangi fram við að halda starfsemi skotsvæðisins í Álfsnesi gangandi. Hljóðmengunin þar sé grafalvarleg og engum bjóðandi. Íbúar ætla að koma saman vegna málsins í dag.

Skotfélagi Reykjavíkur var í síðustu viku gert að stöðva alla starfsemi sína í Álfsnesi í Kollafirði eftir að landeigendur kærðu leyfisveitinguna, vegna hávaða og blýmengunar frá svæðinu. Borgaryfirvöld lýstu því í framhaldinu yfir að þau myndu reyna að tryggja starfsemina á svæðinu, sem landeigendur segja óásættanlegt, enda sé hávaðinn langt yfir heilsuverndarmörkum.

„Það átti að finna framtíðarlausn og skipulagsfulltrúar og aðrir hafa alltaf talað um að þessi skotsvæði væru ekki til framtíðar, því þetta eru óheppilegustu svæði sem til eru fyrir svona skotvopn, því það er svo opið og bert,” segir Anja Þórdís Karlsdóttir, talsmaður landeigenda á svæðinu. Hún segir að hljóðmúrar muni litlu breyta.

„Á þessu svæði hér í kring erum við með kletta hérna sem bergmála og svæðið er svo lágt í landinu, þannig að landfræðilega séð er eiginlega ekki hægt að koma í veg fyrir hávaða hér.”

Blýmengunin sé ekki síður áhyggjuefni, en Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur greindi frá því í upphafi árs að ef fram fer sem horfi sé útlit fyrir jarðvegsmengun. Landeigendur telja mengunina hins vegar mun alvarlegri og gagnrýna að ekki hafi verið farið í frekari rannsóknir á stærra svæði.

„Þetta eru örugglega tugir tonna sem eru af blýi bæði í landi og úti í sjó,” segir Kristbjörn Haraldsson, annar talsmanna landeigenda. Hann segir að hátt í fimmtíu manns af svæðinu ætli að ræða málið í kvöld.

Anja og Kristbjörn furða sig á ákafa borgaryfirvalda í að halda skotsvæðinu á þessum stað, þegar vel sé hægt að finna annan stað fyrir það – fjarri byggð.

„Ég held það geri sér enginn grein fyrir því hversu mikill hávaðinn raunverulega er á þessu svæði. Þetta er óásættanlegt, algjörlega,” segir Anja og Kristbjörn tekur undir.

„Sérstaklega bergmálið sem kemur á eftir, það svona skellur á manni,” segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×