Fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar verður að leggja fram fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Í kosningastefnuskrám flokkanna fyrir kosningarnar á dögunum voru ýmsar hugmyndir um aukin útgjöld. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir nýja ríkisstjórn ekki geta gert dramatískar breytingar á tekju- og gjaldahlið fjárlaga næsta árs með svo stuttum fyrirvara eins og hann orðaði það eftir stjórnarmyndunarfund á þriðjudag.
„En góðu fréttirnar eru þær að við horfum fram á loðnuvertíð og það er margt sem bendir til að það verði góður hagvöxtur á næsta ári. Það mun lífga við tekjustofna ríkisins,“ segir Bjarni.
Á sama tíma hafa stjórnarflokkarnir m.a. lofað auknum útgjöldum til velferðar- og samgöngumála. Framsókn lofaði til að mynda 60 þúsund króna greiðslu í frístundastyrk til allra barna svo eitthvað sé nefnt.
Bjarni minnir á að það hafi myndast mikill halli á ríkissjóði í faraldrinum. Það verði talsvert verkefni næstu árin að ná aftur endum saman og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs.
„Það er mikil áskorun að gera það á sama tíma og menn vilja styrkja ákveðna innviði í landinu. Hvort sem það eru félagslegir eða efnislegir innviðir eins og vegakerfið og fjarskiptakerfið. Þetta er meðal þess sem við þurfum aðeins að ræða og verið að skoða. Í hverju þessar áskoranir liggja og hversu stórt verkefnið er,“ segir Bjarni.
Eftir að stjórnarflokkarnir hafi náð saman um helstu verkefni komi að því að skoða hvernig næsta fjárlagaár geti litið út
„Það getur vel verið að það henti betur stöðunni í hagkerfinu að tímasetja þetta mjög vandlega frekar en hafa þetta mjög framhlaðið. Sú umræða er öll eftir,“ segir Bjarni Benediktsson.