Skoðun

Hindranir í daglegu lífi

Áslaug Inga Kristinsdóttir skrifar

Í dag, 10. október, er alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn. Yfirskriftin í ár hjá WHO er „Geðheilbrigðisþjónusta fyrir alla: gerum það að veruleika“.

Sem notandi í geðheilbrigðiskerfinu og aðgerðasinni hef ég tekið eftir því að það sitja ekki allir við sama borð hvað þetta varðar.

Eins og staðan er sæki ég til að mynda námskeið á vegum Landspítala þar sem ganga þarf upp brattan stiga til að komast að salnum þar sem starfsemin fer fram. Í upphafi þegar ég sá rýmið benti ég námskeiðshaldaranum strax á að ekki væri aðgengi fyrir hreyfihamlaða.

Fyrir nokkrum árum sótti ég námskeið erlendis á vegum Evrópusambandsins sem fjallaði einmitt um aðgengi. Á meðan á því stóð fékk ég innsýn í heim hreyfihamlaðra og þeirra hindranir.

Það rann upp fyrir mér að allir geta á sinn hátt haft meiri eða minni áhrif á gang mála, til dæmis með því að senda ábendingu í tölvupósti eða með símtali.

Sem betur fer eru nýbyggingar flestar hverjar með mun betra aðgengi en þær sem eldri eru. Aðstaðan í Háskólanum í Reykjavík er til að mynda til fyrirmyndar. Flott samfélagsverkefni eru í gangi eins og verkefnið "Römpum upp Ísland".

Stjórnvöld þurfa samt sem áður að spýta í lófana og gera betur í þessum málum. Það er einfaldlega ekki boðlegt í dag að bjóða upp á þjónustu hjá ríkisstofnun sem ekki er aðgengileg öllum.




Skoðun

Sjá meira


×