Í hádeginu í dag höfðu yfir 16.000 miðar selst á leikinn, sem fram fer á Tele2 Arena, og enn eru tveir dagar til stefnu. Áhorfendametið í deildinni er frá árinu 2008 þegar 9.413 manns sáu leik Linköping og Umeå.
Lengi hefur verið grunnt á því góða á milli stuðningsmanna Hammarby og AIK og jafnan verið mikil læti þegar karlalið félaganna hafa mæst.

Nú er ljóst að fjölmenni verður einnig á leik kvennaliðanna en það verður endanlega ljóst á sunnudag hve margir sjá Berglindi Björg Þorvaldsdóttur með Hammarby og Hallberu Guðnýju Gísladóttur með AIK mætast. Tele2 Arena rúmar 30.000 manns.
Mikið er ég spennt að fara spila á móti þér @HallberaGisla fyrir framan 15.000+ manns á Tele2 Arena á sunnudaginn https://t.co/OOLsjqQOcw
— Berglind Björg Thorvaldsdóttir (@berglindbjorg10) October 7, 2021
Ástæðan fyrir metfjöldanum er þó ekki sú að um sérstakan stórleik sé að ræða í deildinni. Liðin hafa raunar að frekar litlu að keppa nú þegar fjórar umferðir eru eftir. Hammarby er með 25 stig í 5. sæti, sjö stigum frá Evrópusæti, og AIK er í 11. sæti með 16 stig en þó ellefu stigum frá fallsæti.