Erlent

Þúsundir komu saman til að lýsa yfir stuðningi við ESB-aðild landsins

Atli Ísleifsson skrifar
Í Varsjá komu rúmlega 100 þúsund manns saman til að lýsa yfir stuðningi við ESB-aðild landsins.
Í Varsjá komu rúmlega 100 þúsund manns saman til að lýsa yfir stuðningi við ESB-aðild landsins. AP

Mikill fjöldi Pólverja kom saman á götum borga og bæja víðs vegar um landið í gær þar sem þeir lýstu yfir stuðningi við aðild að Evrópusambandinu.

Stjórnlagadómstóll í landinu kvað á fimmtudaginn upp þann dóm að lykilákvæði í Evrópulögum væru ósamræmanleg pólsku stjórnarskránni. Óttast margir dóminn vera skref í þá átt að landið gangi úr sambandinu.

Skipuleggjendur mótmælanna segja þau hafa átt sér stað í rúmlega hundrað borgum og bæjum og að í höfuðborginni Varsjá hafi rúmlega 100 þúsund manns komið saman.

Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, hefur varið niðurstöðu dómstólsins. „Við höfum sömu réttindi og önnur lönd. Við viljum að þessi réttindi séu virt,“ sagði forsætisráðherrann á Facebook.

Hann ítrekaði þó að „staður Póllands væri og yrði áfram í fjölskyldu evrópskra þjóða“ og að flokkur hans hafi engin áform um útgöngu.

Standa vörð um evrópskt Pólland

Á mótmælafundinum í Varsjá tók Donald Tusk, fyrrverandi forsætisráðherra og forseti leiðtogaráðs ÉSB og núverandi formaður stjórnmálaflokksins Borgaravettvangs, til máls og hvatti fólk til að standa vörð um „evrópskt Pólland“.

Síðustu ár hefur ítrekað kastast í kekki milli Evrópusambandsins og pólskra yfirvalda. Deilurnar hafa meðal annars snúið að stöðu hinsegin fólks og sjálfstæði dómstóla. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×