Erlent

Kona látin eftir sprenginguna í Gautaborg

Kjartan Kjartansson skrifar
Sprenging varð í íbúðarblokk í Annendal-hverfinu í Gautaborg 28. september.
Sprenging varð í íbúðarblokk í Annendal-hverfinu í Gautaborg 28. september. Vísir/EPA

Sænska lögreglan segir að kona sem hefur legið særð á sjúkrahúsi eftir sprenginguna í íbúðarblokk í Gautaborg í síðasta mánuði sé látin. Karlmaður sem er grunaður um að hafa borið ábyrgð á sprengingunni fannst látinn í síðustu viku.

Sextán manns voru fluttir á sjúkrahús eftir spenginguna í Annendal í Gautaborg aðfaranótt þriðjudagsins 28. september. Flestir þeirra voru með reykeitrun. Eftir lát konunnar er nú litið á rannsókn málsins sem morðrannsókn, að sögn sænska ríkisútvarpsins SVT.

Líks karlmanns á sextugsaldri sem er grunaður um að hafa valdið sprengingunni fannst í sjónum við Gautaborg á miðvikudagsmorgun í síðustu viku. Lögregla segir ekkert hafa komið fram sem bendi til þess að honum hafi verið ráðinn bani.

Alþjóðleg handtökuskipun hafði verið gefin út á hendur manninum. Hann bjó í byggingunni en til stóð að bera hann út daginn sem sprengingin varð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×