Innlent

Full ástæða til þess að horfa til frekari afléttinga á næstunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Katrín Jakobsdóttir, starfandi forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, fyrir utan Ráðherrabústaðinn þar sem formenn ríkisstjórnarflokkana funduðu um áframhaldandi samstarf í dag.
Katrín Jakobsdóttir, starfandi forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, fyrir utan Ráðherrabústaðinn þar sem formenn ríkisstjórnarflokkana funduðu um áframhaldandi samstarf í dag. Vísir/Vilhelm

Í ljósi þróunar kórónuveirufaraldursins er full ástæða til þess að horfa til frekari afléttinga sóttvarnaaðgerða á næstunni, að mati Katrínar Jakobsdóttur, starfandi forsætisráðherra.

Kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, samstarfsflokks Vinstri grænna í ríkisstjórn, hafa gagnrýnt áframhaldandi sóttvarnaaðgerðir síðustu daga. Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi flokksins í Reykjavík, sakaði Þórólf Guðnason, sóttvarnalækni, meðal annars um „hræðsluáróður“ í keyptri færslu á samfélagsmiðlum í gær.

Katrín svaraði því ekki beint þegar hún var spurð hvort hún væri sammála þeim málflutningi í morgun. Sagði hún að íslensk stjórnvöld hefðu verið mjög varfærin í öllum sínum aðgerðum í faraldrinum. Markmiðið væri að tryggja eins eðlilegt samfélag og hugsast gæti samhliða því að heilsa og líf fólks væri verndað.

Stefnan væri ekki að bæla niður faraldurinn heldur tempra hann og sagðist Katrín telja mikilvægt að takmarkanir hæfðu tilefninu.

„Eins og við höfum séð faraldurinn þróast tel ég fulla ástæðu til þess að við séum að fara horfa til frekari afléttinga á næstunni,“ sagði hún.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×