Leikmennirnir heita Stefan Alexander Ljubicic og Sigurður Bjartur Hallsson. Þeir verða til taks hjá KR þegar liðið leikur í Sambandsdeildinni á næstu leiktíð en KR fékk Evrópusæti úr því að Víkingur varð bæði Íslands- og bikarmeistari.
Stefan skoraði 9 mörk í 24 leikjum fyrir HK á síðustu leiktíð, þar af 6 mörk í 21 leik í Pepsi Max-deildinni. HK féll hins vegar niður um deild í lokaumferðinni.
Stefan hefur einnig leikið með Grindavík og Keflavík í efstu deild en þessi 22 ára, hávaxni og líkamlega sterki framherji, var á mála hjá Brighton í Englandi á táningsárum eða þar til hann kom til Grindavíkur sumarið 2019.
Sigurður Bjartur er einnig 22 ára gamall. Hann er uppalinn Grindvíkingur og blómstraði í sumar þegar hann skoraði 17 mörk í 21 leik í Lengjudeildinni og varð næstmarkahæstur í deildinni. Þá skoraði hann tvö mörk í Mjólkurbikarnum. Sumarið 2020 skoraði hann átta mörk í 19 leikjum í Lengjudeildinni.
Áður höfðu KR-ingar tilkynnt um komu markvarðarins Arons Snæs Friðrikssonar sem kom til félagsins frá Fylki.