Á vef Reykjavíkurborgar segir að ásýnd svæðisins muni gjörbreytast en til stendur að opna sex deilda leikskóla, með 120 leikskólaplássum, sem uppfylli allar nútímakröfur og verði prýði í hverfinu.
Áður hafði verið greint frá því að leikskólinn yrði hluti af Brákarborg. Í minnisblaði umhverfis- og skipulagssviðs sem lagt var fyrir borgarráð í sumar kom fram að kaupverðið væri 625 milljónir króna og kostnaður við hönnun, eftirlit og breytingar á kjallara og lóð talinn vera um 600 milljónir.
Eldri húsin nýtt eins og kostur er
Húsin tvö sem fyrir eru verða nýtt „eins og kostur er“ og veðrur byggð ný tengibygging á milli þeirra. Fyrsti áfangi verður kláraður fyrir sumarið 2022, annar áfangi um sumarið og lokaáfanginn verður tilbúinn fyrir haustið.
„Mannvirkin sem fyrir voru eru nýtt eins og hægt er og heldur andi húsanna sér að einhverju leyti. Heildstætt og náttúrulegt útlit einkennir byggingarnar. Klæðning úr lerki kemur utan á húsið sem virkar jafnframt eins og sólskermur til að minnka sólarálag á húsið. Torf verður á þakinu. Geymsluskúr á lóð verður klæddur með sama hætti. Hiti verður í gólfum.
Innandyra eru lykilorðin ljósir litir og náttúruleg efni. Mikið verður um jarðtóna og náttúrulegan við, vel er hugað að hljóðvist en hljóðísog verður byggt inn í innréttingar. Lögð er áhersla á mjúka og stillanlega birtu.
Hvað lóðina varðar er verið að gera eina heildstæða lóð úr því sem áður voru þrjár lóðir. Útgangspunkturinn er að reyna eftir fremsta megni að varðveita og halda í þau tré sem fyrir eru á svæðinu. Lóðin verður að sjálfsögðu afgirt eins og venja er með leikskólalóðir en eins og áður segir opin öllum utan starfstíma leikskólans. Nyrsti hlutinn er ekki síst hugsaður með hverfisgarðinn í huga en þar verður hóll, gróður og rólegt umhverfi með setbekkjum á meðan áherslan næst húsinu er á leiktæki,“ segir á vef borgarinnar.