Erlent

Leggur til að „Reykingar drepa“ verði prentað á hverja einustu sígarettu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
„Við vitum að sígarettur eru krabbameinsstautar,“ segir þingmaðurinn á bakvið tillögurnar.
„Við vitum að sígarettur eru krabbameinsstautar,“ segir þingmaðurinn á bakvið tillögurnar. Getty

Þingmenn í báðum deildum breska þingsins hafa lagt fram tillögur um að sígarettuframleiðendur verði skikkaðir til að prenta „Reykingar drepa“ eða „Reykingar valda krabbameini“ á hverja einustu sígarettu.

„Við vitum að sígarettur eru krabbameinsstautar og draga helming þeirra sem nota þær til dauða. Þannig að ég bind vonir við að viðvaranir á sígarettum myndu forða fólki frá því að láta freistast að byrja að reykja og þá sérstaklega ungu fólki,“ segir Mary Kelly Foy, þingmaður Verkamannaflokksins.

Foy hefur lagt fram viðauka við heilbrigðisfrumvarp sem er til umræðu í þinginu. Hún segist jafnframt vonast til þess að vekja þá til umhugsunar sem þegar reykja að sjá skilaboðin á sígarettunni í hvert sinn sem þeir stinga henni upp í sig.

Tillaga Foy nýtur stuðnings Royal College of Physicians, samtaka sjúkrahúslækna, og Cancer Research UK. Er hún talin myndu þoka Bretlandseyjum nær því markmiði að verða „reyklaust“ árið 2030 en það miðar að því að minnka hlutfall reykingarfólks úr 14 prósentum í 5 prósent.

Áþekk tillaga liggur fyrir lávarðadeildinni en tillaga Foy felur einnig í sér að stjórnvöldum yrði veitt vald til að skattleggja sérstaklega hagnað tóbaksfyrirtækja, til að fjármagna baráttuna gegn tóbaksnotkun.

Þá yrðu aldursmörkin færð úr 18 í 21 ár og framleiðendum rafsígaretta bannað að freista ungs fólks með bragðtegundum og aðlaðandi umbúðum.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×