Fótbolti

Segir Dagnýju hafa varað sig við aðstæðum á Íslandi

Sindri Sverrisson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir og Katerina Svitkova leika saman með West Ham en verða andstæðingar á föstudaginn í afar mikilvægum landsleik.
Dagný Brynjarsdóttir og Katerina Svitkova leika saman með West Ham en verða andstæðingar á föstudaginn í afar mikilvægum landsleik. Getty/Warren Little

Katerina Svitková er stærsta stjarnan í liði Tékka sem mæta Íslandi á Laugardalsvelli á föstudag. Hún hlakkar til að glíma við Dagnýju Brynjarsdóttur og segir hana hafa varað sig við aðstæðum á vellinum.

Dagný og Svitková leika saman hjá West Ham í ensku úrvalsdeildinni en verða andstæðingar á föstudaginn.

„Þetta verður svolítið sérstakur leikur fyrir mig því þarna verður liðsfélagi minn úr West Ham svo það verður smá einkaslagur á milli okkar. Hún [Dagný] spilar á miðjunni og vonandi ég líka svo að það væri gaman að mætast. Ég er viss um að okkar lið býr yfir betri tækni og vonandi getum við sýnt það,“ sagði Svitková við heimasíðu tékkneska knattspyrnusambandsins.

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta leikur síðustu tvo leikina á Laugardalsvelli þetta árið, gegn Tékkum á föstudaginn og Kýpverjum næsta þriðjudag, í undankeppni HM.

Sagt að taka með sér skrúfutakkaskó

Hlífðardúkur hefur verið notaður til að verja völlinn en ljóst er að grasið verður ekki það besta þegar flautað verður til leiks á föstudaginn. Svitková er meðvituð um það eftir að hafa rætt við Dagnýju.

„Íslenska liðið er líkamlega sterkt og leikmenn harðir af sér. Aðstæðurnar verða ekki góðar þarna. Liðsfélagi minn ráðlagði mér að taka með skrúfutakkaskó því það verður rigning, drulla og kuldi þarna. Ég veit mjög vel hvað við erum að fara út í. Þetta verður ekki auðvelt,“ sagði Svitková sem var í liði Tékka sem gerði 1-1 jafntefli við Ísland á Laugardalsvelli í september 2018, í síðustu HM-undankeppni.

Tékkland er með 4 stig eftir 1-1 jafntefli við Holland á útivelli og 8-0 sigur á Kýpur. Ísland tapaði 2-0 gegn Hollandi á heimavelli í sínum fyrsta leik í undankeppninni. Efsta lið hvers riðils kemst beint á HM en liðið í 2. sæti fer í umspil. Leikur Íslands og Tékklands er því afar mikilvægur fyrir bæði lið.


Tengdar fréttir

„Eigum frekar leiðinlega sögu á móti þeim“

„Ég er ótrúlega spennt fyrir þessum leik,“ segir Glódís Perla Viggósdóttir um leikinn við Tékkland á föstudaginn sem gæti ráðið miklu um vonir Íslands um að komast á HM í Ástralíu. Tékkar sviptu Ísland síðasta HM-draumi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×