Erlent

Kosningafrumvarp Demókrata stöðvað í þriðja sinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Öldungadeildarþingmenn Demókrataflokksins á blaðamannafundi á þriðjudaginn. Fyrir miðju má sjá Chuck Schumer, leiðtoga meirihlutans.
Öldungadeildarþingmenn Demókrataflokksins á blaðamannafundi á þriðjudaginn. Fyrir miðju má sjá Chuck Schumer, leiðtoga meirihlutans. AP/Andrew Harnik

Öldungadeildarþingmenn Demókrataflokksins gerðu í kvöld þriðju tilraunina til að greiða atkvæði um kosningafrumvarp þeirra og í þriðja sinn komu Repúblikanar í veg fyrir umræðu og atkvæðagreiðslu um frumvarpið.

Tveir þingmenn Demókrataflokksins eru undir miklum þrýstingi varðandi það að gera breytingar á reglum þingsins svo Repúblikanar gætu ekki stöðvað frumvarpið.

Frumvarpið kallast á ensku „Freedom to vote act“ og myndi gera töluverðar breytingar á fyrirkomulagi kosninga í Bandaríkjunum. Það hefur tekið nokkrum breytingum frá því það var fyrst lagt fram í fulltrúadeildinni í mars.

Það var samið í kjölfar árásar stuðningsmanna Donalds Trump, fyrrverandi forseta, á þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar. Fólkið réðst á þingið með því markmiði að koma í veg fyrir formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna í nóvember í fyrra á grundvelli ítrekaðra ósannra yfirlýsinga Trumps og bandamanna hans um að umfangsmikið kosningasvindl hefði kostað hann sigur.

Gera fólki víða erfiðara að kjósa

Í framhaldið af því og á grundvelli sömu innihaldslausu ásakana voru Repúblikanar í ríkisþingum víðsvegar um Bandaríkin að gera miklar breytingar á reglum um kosningar sem munu gera fólki erfiðara að taka þátt í kosningum og gefa stjórnmálamönnum aukin völd til að hafa áhrif á niðurstöður kosninga.

Sérfræðingar segja aðgerðir Repúbliakna sérstaklega koma niður á kosningarétti þeldökkra Bandaríkjamanna.

Sjá einnig: Takmarkanir repúblikana á kosningum fá grænt ljós

Ásakanir Trumps og bandamanna hans um að umfangsmikið kosningasvindl hafi kostað hann sigur í forsetakosningunum í fyrra, hafa leitt til þess að stór hluti kjósenda Repúblikanaflokksins stendur í þeirri trú að svo sé. Það er þó Trump-liðar hafi ekki getað fært sannanir fyrir því og embættismenn og sérfræðingar segja það rangt.

William Barr, fyrrverandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, gaf út í lok síðasta árs að engar vísbendingar lægju fyrir um að stórfellt kosningasvindl hefði átt sér stað. Í kjölfar þess versnaði samband hans og Trumps verulega og Barr endaði á því að hætta skömmu fyrir embættistöku Bidens.

Sjá einnig: Vildi beita ráðuneytinu til að halda völdum eftir kosningar

Donald Trump, fyrrverandi forseti, hefur ítrekað haldið því fram að umfangsmikið kosningasvindl hafi kostað hann sigur í forsetakosningunum í fyrra. Trump-liðum hefur ekki tekist að færa nokkrar sannanir fyrir þessum ásökunum.AP/Seth Wenig

Fór fljótt í gegnum fulltrúadeildina

Frumvarpið var fljótt samþykkt í fulltrúadeildinni en ekkert hefur gengið að koma því í gegnum öldungadeildina. Er það að miklu leyti vegna reglu sem kallast reglan um aukin meirihluta og snýr að málþófi.

Nýjasta útgáfa frumvarpsins hefði töluvert minni áhrif en fyrsta útgáfa þess. Það sem frumvarpið myndi meðal annars gera er að leggja landslægar reglur varðandi framkvæmd kosninga í Bandaríkjunum, takmarka möguleika embættismanna til að teikna kjördæmi upp flokkum sínum í hag og auka gagnsæi varðandi framlög sem snúa að kosningum, svo opinbera þyrfti frá hverjum slík framlög komi.

Frumvarpið á einnig að gera kjördag að frídegi í Bandaríkjunum.

Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni, sagði að þingmennirnir væru ekki hættir að reyna að verja kosningaréttinn. Baráttunni um „sálu Bandaríkjanna“ væri ekki lokið.

Deilt um gamla reglu

Demókratar gætu ekki verið með naumari meirihluta í öldungadeildinni. Hún skiptist 50-50 milli fylkinga og varaforsetinn, sem er Demókrati, ræður úrslitum. Til að samþykkja flest frumvörp í öldungadeildinni þarf hins vegar sextíu atkvæði vegna reglunnar um aukinn meirihluta.

Reglan um aukinn meirihluta

Reglan segir til um að þörf sé á 60 atkvæðum af hundrað fyrir flest frumvörp en á ensku kallast þessi regla „filibuster“. Hún felur í raun í sér að hvaða þingmaður sem er getur tafið störf þingsins með málþófi, nema minnst 60 þingmenn greiði atkvæði gegn því.

Á árum áður þurftu þingmenn að standa í pontu og halda ræður til að stöðva störf þingsins með málþófi en því var breytt á þá leið að þingmenn þyrftu bara að lýsa því yfir að þeir ætluðu að tefja störf þingsins og ekki standa í pontu.

Það þarf þó einungis 51 atkvæði til að fella regluna niður. Demókratar felldu regluna niður tímabundið þegar Repúblikanar stóðu í vegi margra sem Barack Obama hafði tilnefnt til fjölmargra opinberra embætta og Repúblikanar felldu niður regluna varðandi tilnefningu hæstaréttardómara í forsetatíð Trumps.

Litlar líkur eru því á því að frumvarp Demókrata muni nokkurn tímann verða samþykkt af öldungadeildinni.

Öldungadeildarþingmaðurinn Angus King, frá Maine, sem er sjálfstæður en fylgir Demókrataflokknum að mestu, lýsti því yfir í kvöld að hann væri ekki lengur mótfallinn því að fella niður regluna um aukinn meirihluta.

„Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að lýðræðið sjálft er mikilvægar en allar reglur öldungadeildarinnar.“

Þetta sagði King samkvæmt AP fréttaveitunni. Hann ítrekaði þó að breytingar gætu bitið Demókrata í rassinn Þegar Repúblikanar ná meirihluta í öldungadeildinni.

Allra augu beinast nú að tveimur þingmönnum Demókrataflokksins. Þeim Joe Manchin og Kyrsten Sinema frá Vestur-Virginíu og Arizona. Þau hafa bæði lýst því yfir að þau vilji ekki fella niður regluna um aukinn meirihluta.

Sjá einnig: Skaut á tvo á­hrif­a­mikl­a Dem­ó­krat­a í öld­ung­a­deild­inn­i

Uppi eru hugmyndir um að gera takmarkaðar eða tímabundnar breytingar á reglunni svo hægt væri að koma þessu frumvarpi í gegn. Bæði Manchin og Sinema komu að því að semja frumvarpið sem Repúblikanar stöðvuðu í kvöld.

Washington Post hefur eftir þingmönnum Repúblikanaflokksins að þeir hafi litlar áhyggjur af því að Manchin og Sinema muni láta undan þrýstingi flokksbræðra og systra sinna.


Tengdar fréttir

Lofts­lags­á­ætlun Bidens í vanda

Metnaðarfull loftslagsaðgerðaáætlun Joes Biden Bandaríkjaforseta virðist vera að sigla í strand. Fjármögnun orkuskipta, sem var einn burðarstólpa áætlunarinnar, verður líklega felld út úr fjárlagafrumvarpi sem nú er í meðferð í öldungadeild Bandaríkjaþings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×