Financial Times greinir frá og vísar í tilkynningu frá Trump þar sem fram kemur að samfélagsmiðlinum, sem á að heita TRUTH Social, muni vera stýrt af Trump Media & Technology Group (TMTG).
„Ég skapaði TRUTH Social til þess að verjast ofríki stórra tæknifyrirtæki,“ vitnar Financial Times í Trump. „Við búum í heimi þar sem Talibanar eru úti um allt á Twittter, en þaggað hefur verið niður í ykkar uppáhalds Bandaríkjaforseta. Þetta er óásættanlegt.“
Trump var sem kunnugt er útilokaður frá Facebook og Twitter eftir tap hans í forsetakosningunum ytra á síðasta ári. Forsetinn fyrrverandi nýtti sér þessa miðla óspart í forsetatíð hans til þess að koma skilaboðum sínum á framfæri.
Hefur Trump verið mjög ósáttur við bannið og sakað Facebook og Twitter um ritskoðun, en forsetinn fyrrverandi var bannaður á Twitter og öðrum samfélagsmiðlum fyrir að hvetja til ofbeldis, eftir að stuðningsmenn hans reyndu að ryðja sér leið inn í þinghúsið í janúar. Markmið þeirra var að stöðva formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna í fyrra, sem Trump tapaði og Joe Biden vann.
Samkvæmt frétt Financial Times er þegar hægt að forskrá sig til þess að ná í TRUTH Social forritið í App Store, netverslun Apple, en stefnt er að því að það muni fara í loftið á næsta ári.