Erlent

Lúxem­borg fyrst í Evrópu til að leyfa ræktun og neyslu kanna­bis­efna

Þorgils Jónsson skrifar
Lúxemborg hefur nú leyft ræktun og neyslu kannabisefna, með takmörkunum þó, og er þar með fyrsta Evrópuríkið til að feta þá braut.
Lúxemborg hefur nú leyft ræktun og neyslu kannabisefna, með takmörkunum þó, og er þar með fyrsta Evrópuríkið til að feta þá braut.

Íbúar í Lúxemborg mega eiga allt að fjórum kannabisplöntum til eigin nota samkvæmt nýjum lögum sem tilkynnt var um í dag og Guardian segir frá.

Með þessu er Lúxemborg fyrsta Evrópulandið til að heimila ræktun og neyslu kannabisefna, en ástæðan baki þessari breytingu er sögð að bönn hafi hingað til ekki haft nein áhrif til þess að draga úr neyslu. Lögin voru í raun samþykkt fyrir um tveimur árum síðan en eru nú fyrst að koma til framkvæmda.

Þá verður löglegt að kaupa og selja fræ kannabisplöntunnar, en sala á efnunum sjálfum og neysla á almannafæri verður áfram bönnuð enn sem komið er. Þó verður einnig slakað á lögum og varsla og notkun neysluskammta upp að þremur grömmum er afglæpavædd, það er flokkuð sem minniháttar afbrot.

Umræddar reglur eru fyrsta skrefið í frekari tilslökunum sem stefna að því að undirbyggja löglegan markað með ræktun og sölu á kannabisefnum. Er stefnt að því að tekjur ríkisins af löglegri framleiðslu og sölu efnanna verði nýttar til forvarna og meðferðar vegna fíkniefna í víðara samhengi.

Lúxemborg er þar með komið í hóp með Kanada, Úrúgvæ og 11 ríkjum í Bandaríkjunum í hópi ríkja sem hafa leyft kannabisneyslu.

Holland er jafnan talið til frjálslyndari ríkja í Evrópu í þessum málum, en í raun er neysla, varsla og sala kannabisefna ólögleg þar í landi, en þar ríkir samkomulag um að ekki sé aðhafst í málum innan ákveðinna marka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×