Breska ríkisútvarpið greinir frá því að nýja afbrigðið, sem af einhverjum hefur verið nefnt „Delta-plús,“ hafi verið fært á lista yfir þau afbrigði sem eru til rannsóknar hjá Heilbrigðisöryggisstofnun Bretlands (UKHSA).
Þau gögn sem til eru um afbrigðið benda til þess að afbrigðið sé meira smitandi en Delta-afbrigðið, en ekki að veikindin sem það veldur séu alvarlegri. Þá telja vísindamenn að þau bóluefni sem þegar hafa verið þróuð veiti góða vernd gegn afbrigðinu.
Delta-afbrigðið er ráðandi í Bretlandi líkt og víða annars staðar, en þar í landi hefur tilfellum Delta-plús, sem fellur í eins konar undirflokk Delta-afbrigðisins, fjölgað. Fræðilegt heiti afbrigðisins er AY.4.2, en um sex prósent þeirra sem greinst hafa með Delta í Bretlandi hafa greinst með Delta-plús.
„Þessi undirflokkur hefur orðið algengari í Bretlandi á síðustu mánuðum og frumgögn benda til þess að smittíðni hans í landinu sé hærri en Delta-afbrigðisins,“ hefur BBC eftur UKHSA.
Breska ríkisútvarpið segir sérfræðinga þó ekki hafa miklar áhyggjur af því að Delta-plús kunni að verða ráðandi, eða að bóluefni hafi minni áhrif á það. Afbrigðið er enn sem komið er ekki á lista yfir þau afbrigði sem gefi tilefni til sérstakra áhyggja, sem er alvarlegasti flokkurinn í þessum fræðum.
Afbrigðið hefur meðal annars greinst í Bandaríkjunum og í Danmörku, en í síðarnefnda ríkinu hefur virkum tilfellum afbrigðisins fækkað á síðustu dögum.