Fótbolti

Sveindís Jane: Á leiðinni til Wolfsburg eftir tímabilið

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Sveindís Jane á sprettinum.
Sveindís Jane á sprettinum. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska kvennalandsliðið leikur við Kýpur á Laugardalsvelli á þriðjudaginn. Sveindís Jane Jónsdóttir, sóknarmaður íslenska liðsins, var spurð út í síðasta leik landsliðsins og verkefnið framundan.

Sveindís var spurð á blaðamannafundinum út í stöðuna á hópnum og liðinu:

„Ég er mjög góð og allir í liðinu heilir eftir leikinn við Tékka. Við vorum mjög sáttar við að hafa skorað fjögur mörk og bara sáttar við leikinn“.

„Við ætlum að sækja vel á Kýpur og skora eins mikið og við getum. Við þurfum að skerpa aðeins á sóknarleiknum þó að við munum auðvitað verjast líka. En þetta er akkúrat svona leikur þar sem við viljum ná markatölunni aðeins upp.“

Sveindís var einnig spurð út í tímabilið í Svíþjóð og næsta tímabil. Sveindís er samningsbundin Wolfsburg í Þýskalandi en var lánuð í til Kristianstad í sænsku deildinni þetta tímabilið.

„Ég er frekar sátt við hvernig hefur gengið en ég missti af nokkrum leikjum. Það hefur kannski ekki gengið alveg nógu vel að skora en er heilt yfir sátt og við erum í meistaradeildarsæti.“

En mun hún spila annað tímabil í Svíþjóð?

„Það er komin dagsetning og eins og þetta lítur út núna þá er ég á leiðinni til Wolfsburg eftir tímabilið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×