
SLS stendur fyrir Space Launch System og hefur þróun eldflaugarinnar að mestu verið í höndum NASA og Boeing. Upprunalega átti að skjóta fyrstu eldflauginni á loft árið 2016 en miklar tafir hafa orðið á vinnunni.
Orion-geimfarið var að mestu þróað af Lockheed Martin. Saman eru eldflaugin og geimfarið rétt tæplega hundrað metrar á hæð.
Ekki stendur til að skjóta eldflauginni og geimfarinu á loft fyrr en í fyrsta lagi í febrúar.
NASA birti á föstudaginn grein þar sem meðal annars er farið yfir hvaða tilraunir nú þarf að gera á eldflauginni, þar sem búið er að setja hana saman í fyrsta sinn.
Meðal annars þarf að tryggja að allt sé með felldu, bæði í geimfarinu og eldflauginni. Hvort allar tengingar og leiðslu virki ekki sem skyldi og kanna hvort SLS og Orion „tali ekki rétt saman“.
Þá verða gerðar tilraunir með samskiptabúnað geimfarsins og verður kannað hvort ekki virki að dæla eldsneyti á eldflaugina.
„Það er erfitt að koma orðum að því hvað þessi áfangi þýðir, ekki bara fyrir okkur heldur einnig alla þá sem hafa unnið að því að komast hingað,“ er haft eftir Mike Bolger, yfirmanni hjá NASA, í áðurnefndri grein.
Hér má sjá myndband frá 2019 sem sýnir hvaða leið Orion-geimfarið á að fara til tunglsins og til baka.
Hér má sjá ársgamalt kynningarmyndband NASA um Artemis-áætlunina. Gríska gyðjan Artemis er systir guðsins Apollos. Eins og frægt er var það nafn verkefnisins sem sneri að tunglferðunum sem farnar voru á árum áður.