Fregnir hafa borist af því að í sumar hafi Kínverjar gert tilraunir með sérstakar eldflaugar og vopnaodda sem geti borið kjarnorkuvopn. Vopnaodda sem hægt sé að skjóta á braut um jörðu og láta svo falla til jarðar á miklum hraða úr hvaða átt sem er. Þannig gætu Kínverjar komist hjá hefðbundnum eldflaugavörnum Bandaríkjanna og annarra ríkja.
Gætu komist hjá eldflaugavörnum
Hefðbundnar hljóðfráar eldflaugar eru smærri eldflaugar sem geta flogið á miklum hraða með jörðinni og skipt um stefnu mjög hratt. Þannig eiga þær einnig að komast hjá hefðbundnum eldflaugavörnum.
Mark Milley, formaður herforingjaráðs Bandaríkjanna, sagði í viðtali sem birt var af Bloomberg í dag að yfirvöld Bandaríkjanna fylgdust náið með þessum. Þetta væri mjög líkt því þegar Spútnik var skotið á loft.

Það geimskot kom Bandaríkjamönnum á óvart og sýndi fram á að Sovétríkin stóðu Bandaríkjunum framar í tækni til geimferða. Samanburðurinn þykir sýna að tilraunir Kína hafi varpað ljósi á sambærilega stöðu þeirra gagnvart Bandaríkjunum varðandi hljóðfráar eldflaugar og vopnaodda.
Yfirvöld í Kína hafa neitað þessum fregnum og segjast hafa skotið hefðbundnu geimfari á braut um jörðu og lent því aftur á jörðinni.
Kína helsti andstæðingur Bandaríkjanna
Í viðtalinu sagði Milley að Kínverjar væru að auka getu sýna á öllum sviðum hernaðar, á láði og legi jafnt sem í lofti og í geimnum. Sömuleiðis hefðu Kínverjar aukið getu þeirra til að gera tölvuárásir.
„Ef við horfum fram á við, yfir næstu tíu, tuttugu, tuttugu og fimm ár, er engin spurning að okkar helsti andstæðingur verður Kína. Þeir hafa þróað her sem er mjög öflugur,“ sagði Milley.
Hann sagði einnig að uppbygging Kínverja væri meiri en fjárútlát til varnarmála gefi til kynna. Kostnaður við hvern kínverskan hermann sé töluvert minni en hver bandarískur hermaður kosti og þar að auki sé mikill rannsóknar- og þróunarkostnaður við nútímavæðingu hers Kína borinn af ríkisfyrirtækjum sem séu ekki talin með í opinberum tölum.
Milley sagði að ef nánar væri litið kæmi í ljós að munurinn milli fjárútláta Bandaríkjanna og Kína til varnarmála væri minni en margir héldu.
Mikil spenna vegna Taívans
Samband Bandaríkjanna og Kína hefur versnað til muna að undanförnu. Þá spennu má að miklu leyti rekja til deilna Kínverja við Taívan.

Kínverjar segja Taívan tilheyra Kína en árið 1949 flúðu þjóðernissinna til eyjunnar undan kommúnistum í borgarastyrjöld landsins. Forsvarsmenn Kommúnistaflokksins hafa heitið því að ná völdum í Taívan, með valdi ef nauðsynlegt sé.
Xi Jinping, forseti Kína, hefur sagt það „óhjákvæmilegt“ að Taívan verði hluti af Kína.
Taívanar segjast sjálfstæðir og segjast ætla að verja frelsi þeirra og lýðræði. Sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin í Taívan á undanförnum árum en Taívanar hafa aldrei lýst yfir formlegu sjálfstæði.
Í svari við fyrirspurn Reuters sögðu talsmenn utanríkisráðuneytis Kína að Taívan yrði ekki leyft að lýsa yfir sjálfstæði og eyríkið yrði hluti af Kína. Þá sögðust þeir ekki ætla að heita því að valdi yrði ekki beitt gegn Taívan.