Mbl.is birti í gær myndskeið sem vakið hefur töluverða athygli. Það er tekið úr fjarlægð þar sem sjá má Bombardier Global 5000 einkaþotu undirbúa flugtak á Reykjavíkurflugvelli, ekki vildi svo betur til en að vegfarandi sem þar var staddur til að fylgjast með flugtakinu fauk út á Suðurgötuna þegar flugmenn vélarinnar gáfu hreyflunum afl.
Sá sér leik á borði
Þessi vegfarandi er Benedikt Sveinsson, sem sjálfur birti myndskeið af byltunni, á Facebook-síðu hans. Myndskeiðið og byltuna, sem sjá má hér að neðan, náði Benedikt á myndband er hann ætlaði að ná einstöku myndbandi af flugtaki vélarinnar.
„Ég er flugáhugamaður. Ég sá að þarna var hliðarvindur og stór þota að fara í loftið, mig langaði til að ná flottri eftirmynd af henni. Ég hef tekið svona myndir áður en alltaf verið til hliðar,“ segir hann í samtali við Vísi.
Sá hann sér því leik á borði með fyrrgreindum afleiðingum.
„Ég ákvað í einhverri rælni að fara beint fyrir aftan hana. Ég var alltaf að passa mig að fá ekki eitthvað grjót í mig þannig að ég hélt ekki í girðinguna. Ég átti aldrei von á því að ég myndi bara fjúka. Kannski detta en ekki fara út á götu,“ segir Benedikt sem telur að hann hafi fokið einhverja fjóra metra, inn á miðja Suðurgötuna.
Varð ekki meint af
Honum varð ekki meint af byltunni og birti hann myndskeiðið á Facebook að eigin sögn, mest í gríni. Eftir á að hyggja hafi hann þó farið að velta því fyrir sér hversu gáfulegt það væri að vegfarendur um Suðurgötuna ættu það á hættu að fá á sig svo öflugt loftstreymi frá flugvélum með mögulegum slæmum afleiðingum.
„Fólk er ekkert að pæla í þessum flugvélum, þær eru að fara þarna í loftið oft og mörgum sinnum. Ég stoppaði vissulega af því að þetta var stór einkaþota en það eru stórar vélar að fara þarna í loftið alveg fram og til baka,“ segir Benedikt.
Stöðugur straumur einkaflugvéla hefur verið gegnum Reykjavíkurflugvöll upp á síðkastið, og eru þeir bæði fleiri og stærri en áður.
Nokkur umræða hefur skapast um málið, þar á meðal á Twitter-síðu Gísla Marteins Baldurssonar fjölmiðlamanns, sem hefur ekki legið á skoðunum sínum um að Reykjavíkurflugvöllur eigi ekki heima í Vatnsmýrinni.
„Náttúrulega fullkomlega eðlilegt að venjulegum fótgangandi borgurum á gangstéttum sé feykt um koll af einkaþotum milljarðamæringa á flugvelli sem tekur burt byggingarland fyrir 30 þúsund manns,“ skrifar Gísli Marteinn á Twitter þar sem hann bendir á að fjöldi fólks noti þessa gangstétt.
Eins og ljósmyndarinn sem fauk bendir sjálfur á þá er hann ca 100 kg og fauk út á Suðurgötuna og hann spyr: Hvað ef þetta hefði verið krakki á hjóli? Og hvað ef bíll hefði verið að koma aðvífandi? Þetta er gangstétt sem fjöldi fólks notar. Burt með þennan flugvöll. pic.twitter.com/PUcMx09Poa
— Gísli Marteinn (@gislimarteinn) October 26, 2021
Sjálfur vekur Benedikt athygli á því að það þurfi alla jafna þó nokkurn kraft til þess að hagga sér, og spyr hvað hefði gerst ef barn hefði verið á leið hjá þegar flugvélin tók af stað. Benedikt býr í Skerjafirðinum og á hann og fjölskylda hans oft leið framhjá flugbrautarendanum.
„Ef að stelpan mín væri að hjóla þarna framhjá, 40 kíló, hún myndi fara beint út á götu fyrir bíl.“
Vísir hefur lagt inn fyrirspurn til Isavia, sem rekur Reykjavíkurflugvöll, vegna málsins og spurt um ráðstafanir til að tryggja öryggi vegfarenda við enda flugbrautarinnar.