Sigurður Örn segir frá þessu í samtali við Fréttablaðið og sömu sögu segir Hervör Lilja Þorvaldsdóttir, forseti Landsréttar. Hervör segir dóminn þó halda í við þau mál sem koma inn.
Sigurður Örn segir í samtali við blaðið að boðunarfrestur aðalmeðferða sé orðinn mjög skammur og að slíkt geti valdið lögmönnum vandræðum þar sem þeir ráða ekki dagsetningunum og verði að skipuleggja sig í kringum þær.
Hann bendir einnig á að almennt taki of langan tíma að taka málsgögn úr héraðsdómi saman í svokallaða dómsgerð þegar máli er áfrýjað til Landsréttar.
Mál á borði Landsréttar fóru að safnast upp skömmu eftir stofnun réttarins, þegar dómsmálaráðherra skipaði fimmtán dómara en þrír þeirra fóru svo í leyfi vegna Landsréttarmálsins svokallaða.
Lögmannafélagið fundaði með Dómstólasýslunni í gær um álagið og segir Sigurður Örn í samtali við blaðið að fundurinn hafi gengið vel.