Jóhannes stýrði Start á árunum 2019-21. Hann kom liðinu upp í norsku úrvalsdeildina 2019 en það féll aftur niður í B-deildina árið eftir. Jóhannesi var svo sagt upp störfum um miðjan júní þegar aðeins fimm umferðir voru búnar af norsku B-deildinni. Hann var áður aðstoðarþjálfari Start og lék með liðinu á árunum 2004-08.
Jóhannes er nú á heimleið og tekur við stöðu aðstoðarþjálfara hjá uppeldisfélagi sínu ef marka má heimildir Kristjáns Óla Sigurðssonar í Þungavigtinni.
„Hann verður aðstoðarþjálfari og hlýtur að fá eitthvað stærra hlutverk innan félagsins. Þetta er risastórt nafn. Starfið hans hjá Start er á topp tíu yfir stærstu störf sem Íslendingar hafa fengið í þjálfun,“ sagði Kristján Óli.
Í samtali við Vísi vildi Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar ÍA, ekki staðfesta að Jóhannes væri á leið til ÍA en sagði að breytingar á þjálfarateymi karlaliðs félagsins væru fyrirhugaðar.
Jóhannes Karl Guðjónsson er þjálfari ÍA en honum til aðstoðar á síðasta tímabili var Fannar Berg Gunnólfsson. Jóhannes Karl hefur stýrt ÍA undanfarin fjögur ár. Á síðasta tímabili björguðu Skagamenn sér frá falli úr Pepsi Max-deildinni á ævintýralegan hátt og komust í úrslit Mjólkurbikarsins.
Jóhannes Harðarson þjálfaði Flekkerøy í Noregi 2013-14 og tók svo við karlaliði ÍBV fyrir tímabilið 2015. Hann fór í leyfi á miðju sumri og sneri ekki aftur til starfa hjá ÍBV.
Alla þætti af Þungavigtinni má nálgast á tal.is/vigtin.