Íslenska landsliðið kom saman í gær og æfir á hverjum degi í þessari viku. Fyrsta æfingin var í Víkinni í gær. Æfingarnar marka upphafið að undirbúningnum fyrir EM í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar á næsta ári.
Darri hefur nú verið kallaður inn í landsliðið og mætir á sína fyrstu æfingu í hádeginu í dag. Hann er einn þriggja nýliða í íslenska hópnum ásamt Einari Þorsteini Ólafssyni og Elvari Ásgeirssyni.
Darri, sem er 22 ára skytta, hefur skorað 4,0 mörk að meðaltali í leik í Olís-deildinni í vetur. Þá er hann í lykilhlutverki í vörn Hauka.
Faðir Darra, Aron Kristjánsson, lék með landsliðinu og þjálfaði það síðan á árunum 2012-16. Aron er í dag þjálfari Hauka.