Innlent

Ástand á Akranesi: Fimmtíu greindust og skólum lokað

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Langasandi á Akranesi, útivistarparadís Skagamanna.
Frá Langasandi á Akranesi, útivistarparadís Skagamanna. Vísir/Vilhelm

Alls greindust fimmtíu manns með Covid-19 á Akranesi í gær að því er Lögreglan á Vesturlandi greinir frá. Allir skólar í bænum verða lokaðir á morgun.

Stjórnendur Fjölbrautaskóla Vesturlands (FVA) ákváðu í gær að loka skólanum og skipta yfir í fjarkennslu fram að helgi vegna kórónuveirusmita sem hafi mögulega breiðst þar út.

Á vef skólans kom fram að staðan á Akranesi væri alvarleg búist við því að mikill fjöldi fólks mæti í sýnatöku á Heilbrigðisstofnun Vesturlands í gær.

Svo virðist hafa verið tilfellið. 25 voru í einangrun á Skaganum í gær og nú sólarhring síðar er talan komin upp í 75.

Skólum lokað

Skagafréttir greina frá því að Bæjarráð Akraness hafi komist að þeirri niðurstöðu að fella niður alla starfsemi í leikskólum, grunnskólum, tónlistarskóla og frístundastarfi bæjarins föstudaginn 5. nóvember.

„Vegna smita og sóttkvíar verður lágmarks starfsemi það sem eftir er dagsins í dag á stofnunum bæjarins og eru foreldrar beðnir um að gera ráðstarfanir til þess að sækja börn sín um hádegi í dag ef þess er nokkur kostur. Ef foreldrar hafa ekki tök á vegna vinnu sinnar að sækja ung börn sínum hádegi þá verður það leyst,“ segir á vef Skagafrétta.

Eldri börn grunnskólanna verða send heim um hádegi. Allar íþróttaæfingar á vegum félaga innan ÍA falla niður í dag og fram yfir helgi í það minnsta. Þreksalnum í Jaðarsbökkum hefur einnig verið lokað.

Móttöku einnota umbúða í Fjöliðjunni hefur verið lokað um óákveðinn tíma og Búkollu hefur einnig verið lokað um óákveðinn tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×