Innlent

Lag­færingar á Foss­vogs­skóla taldar kosta rúma 1,6 milljarða ís­lenskra króna

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Fossvogsskóla.
Frá Fossvogsskóla. Vísir/Egill

Áætlað er að kostnaður við lagfæringar og endurbætur á Fossvogsskóla nemi meira en 1.640 milljónum króna. Borgarráð samþykkti heimild til útboðs á framkvæmdunum í dag.

Starfsemi Fossvogsskóla var flutt annað eftir að myglu- og rakaskemmdir fundust í húsnæði hans. Frumkostnaðaráætlun verkfræðistofnunnar Eflu á framkvæmdunum sem þarf til að bæta innivist og uppfæra húsnæðið til að mæta nútímakröfum um kennslu og öryggi hleypur á rúmum 1,6 milljarði króna, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Áætlað er að allt skólastarf Fossvogsskóla verði í Fossvogsdal haustið 2022. Börn munu þá stunda nám í tveimur uppgerðum byggingum, Austurlandi og Vesturlandi, og að hluta til einnig í einingarhúsum á lóð skólans. Áætlað er að framkvæmdum við Meginland ljúki haustið 2023.

Í framkvæmdunum sem standa fyrir dyrum verður einangrun innan á útveggjum allra bygginga fjarlægð. Þá verða útveggir einangraðir að utan og klæddir með álklæðningu. Allir gluggar og útihurðir verða endurnýjaðar og lokið við að endurnýja öll þök. 

Ennfremur verða innveggir fjarlægðir og endurbyggðir í samræmi við gildandi eldvarnarkröfur, raflagnir og pípulagnir verða endurnýjaðar sem og loftaefni og gólfefni. Loftræsting allra húsa verður yfirfarin og virkni breytt með tilliti til bættrar innivistar. Þá verða skriðkjallarar undir byggingunum lagfærðir og þéttir og brunnar sem nú eru inni í byggingunum færðir út úr húsum. Þá er unnið að breyttu innra skipulagi á húsnæðinu svo byggingarnar henti betur fyrir nútíma kennsluhætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×