Erlent

Ræningi fjögurra ára stúlku færður í há­marks­öryggis­fangelsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn að störfum við húsið þar sem Cleo Smith fannst heil á húfi á miðvikudag.
Lögreglumenn að störfum við húsið þar sem Cleo Smith fannst heil á húfi á miðvikudag. AP/Richard Wainwright/AAP

Karlmaður sem rændi Cleo Smith, fjögurra ára gamalli stúlku, úr tjaldi foreldra hennar fyrir tæpum þremur vikum var færður í hámarksöryggisfangelsi í Perth í Ástralíu í dag. Hann hefur reynt að valda sér skaða í fangelsi.

Lögregluþjónar fundu Cleo Smith á heimili 36 ára gamals manns í bænum Carnarvon í Vestur-Ástralíu á miðvikudag. Þá voru átján daga liðnir frá því að hún hvarf af tjaldsvæði í Macleod um hundrað kílómetra norðan við Carnarvon.

Dómsmálaráðuneyti Ástralíu greindi frá því í dag að maðurinn hefði verið fluttur í hámarksöryggisfangelsi. Sjónvarpsmyndir sýndu lögreglumenn flytja manninn hlekkjaðan og berfættan úr lögreglubíl í flugvél eftir að hann var handtekinn í Carnarvon á miðvikudag, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Maðurinn heitir Terry Kelly og var ákærður fyrir ránið á Cleo í gær. Hann kom stuttlega fyrir dómara í Carnarvon í gær en dómari neitaði honum um lausn gegn tryggingu. Grunsemdir eru sagðar hafa vaknað á meðal nágranna Kelly þegar þeir sáu hann kaupa bleyjur en þeir vissu ekki til þess að hann ætti barn.

Kelly er sagður hafa valdið sjálfum sér skaða í fangelsi en að hann sé ekki alvarlega sár.

Foreldrar Cleo þökkuðu lögreglu og þeim sem komu að umfangsmikilli leit að dóttur þeirra í dag. Óskuðu þeir eftir því að friðhelgi einkalífs þeirra yrði virt í framhaldinu. Hvarf Cleo vakti gríðarleg athygli í Ástralíu og víða um heim.

„Við erum svo þakklát að litla stúlkan okkar sé komin aftur í fangið á okkur og að fjölskyldan sé heil aftur,“ sagði fjölskyldan í yfirlýsingu.

AP-fréttastofan hefur eftir Cameron Blaine, einum rannsóknarlögreglumannanna sem fundu Cleo, að hún virðist í ótrúlega góðu jafnvægi eftir ránið.

„Ég er viss um að þetta hefur haft áhrif en að sjá hana hegða sér svo eðlilega fyrir fjögurra ára gamla telpu og að njóta samvista litlu systur sinnar og fjölskyldu var gott að sjá,“ segir Blaine sem heimsótti Cleo og fjölskyldu í Carnarvon.

Um fimm þúsund manns búa í Carnarvon. Húsið sem Cleo fannst í er í innan við tíu mínútna akstursfjarlægð frá heimili hennar. Kelly er þó ekki sagður hafa þekkt til fjölskyldu Cleo.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×