Smitaðir myndu taka lyfið í pilluformi í fimm daga og á það að koma í veg fyrir að kórónuveiran geti fjölgað sér. Flest öll önnur lyf gegn Covid-19 eru veitt í æð.
775 óbólusettir aðilar tóku þátt í rannsókn Pfizer. Minna en eitt prósent þeirra sem tóku lyfið þurftu á sjúkrahús og enginn dó. Innan hópsins sem fékk lyfleysu þurftu sjö prósent á sjúkrahús og sjö dóu.
Rannsókn Pfizer verður kynnt eftirlitsstofnunum samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar. Þá vilja forsvarsmenn fyrirtækisins að notkun lyfsins verði heimiluðu eins fljótt og auðið er. Ákvörðun um það gæti legið fyrir nokkrum vikum eftir að Pfizer sækir um heimild.
Kalla lyfið Paxlovid
Fáist leyfi ætlar Pfizer að selja lyfið undir nafninu Paxlovid. Það tilheyrir flokki lyfja sem hafa gerbylt meðferð við HIV og lifrarbólgu C.
Lyfjafyrirtæki um heiminn allan hafa lagt mikið púður í þróun lyfja sem þessara við Covid-19. Eins og sagt er í frétt Washington Post eru veirulyfin ekki ætluð til þess að koma í veg fyrir að fólk smitist af Covid-19. Bóluefni eru besta vörnin gegn því.
Þessi lyf á að nota þegar fólk veikist.
Ríkisstjórn Bretlands heimilaði í gær notkun veirulyfsins molnupiravir en það á einnig að draga verulega úr alvarlegum veikindum og dauða. Það lyf er framleitt af Merck.
Sjá einnig: Bretar hefja notkun lyfs sem gæti markað þáttaskil í baráttunni við Covid
Í viðtali við AP segir Dr. Mikael Dolsten, æðsti vísindamaður Pfizer, að vísindamennirnir hafi bundið miklar vonir við lyfið en sjaldgæft sé að sjá lyf með jafn mikla virknir og Paxlovid.