Búið að opna fyrir umsóknir
Í dag opna umsóknir fyrir seríu tvö af þessum íslensku stefnumótaþáttum en fyrsta serían var sýnd á Stöð 2 nú fyrr í haust.
Í þáttunum fá áhorfendur að kynnast einhleypu fólki á öllum aldri sem eru í leit að ástinni og ævintýrum.
Þátttakendum er kynnst meðal annars í gegnum skemmtileg og einlæg viðtöl og í hverjum þætti er fólk svo parað saman á blint rómantískt stefnumót á fallegum veitingastað í miðbæ Reykjavíkur.

„Við erum mjög þakklát fyrir góðar viðtökur á seríu eitt og það sem gladdi okkur hvað mest var hvað þátturinn virtist höfða til breiðs hóps. Ég hugsa að fólk hafi fljótt áttað sig á því að við vorum ekki að gera vandræðalegt sjónvarp heldur alvöru mannlífsþátt,
..segir Lúðvík Páll Lúðvíksson framleiðandi þáttanna.
Umsóknarfrestur til 15. nóvember
Umsóknarfresturinn er til 15. nóvember og fyrir áhugasama er hægt að sækja um HÉR.
Geta allir sótt um eða eruð þið að leita eftir einhverju sérstöku?
„Já, næstum. Eða allir sem eru tuttugu ára og eldri og eru í leit að ástinni. Við erum að leita eftir fólki á öllum aldri og bara allskonar áhugaverðu fólki.“
Lúðvík segist nú þegar finna fyrir miklum áhuga fyrir seríu tvö og eðlilegt að fólk hafi margar spurningar varðandi ferlið og þátttökuna.
„Fólki er velkomið að senda okkur fyrirspurnir á Instagram síðu Fyrsta bliksins en þar er líka hægt að fylgjast með ferlinu sem er framundan, skemmtilegar klippur og slíkt. Svo er líka hægt að hafa samband í gegnum netfangið fyrstablikid@stod2.is.“
Í lokaþætti fyrstu seríu var sýnt frá stefnumóti þeirra Helgu og Garðars og er óhætt að segja að amor hafi bankað hressilega upp á þar á bæ. Garðar lýsti upplifun sinni af þátttökunni við það að vinna í lottóinu.
Hér fyrir neðan er hægt að sjá viðtal við parið í Íslandi í dag.
Hægt að er sjá alla umfjöllun Vísis um þættina, ásamt myndbandsbrotum hér.