Í frétt Reuters segir að hópurinn hafi samanstaðið af stúdentum, aðgerðasinnum og almennum borgurum sem láta sig loftslagsmál varða. Þau hafi ekki látið kuldann á sig fá þar sem þau gengu frá Kelvingrove Park niður að George Square, sumir hrópandi slagorð gegn kapítalisma og stórfyrirtækjum, en aðrir til stuðnings loftslagsréttlæti og bændum sem eiga um sárt að binda.
Aðgerðasinnum finnst fulltrúar á ráðstefnunni ekki hafa náð merkjanlegum árangri, þrátt fyrir að fyrir liggi heit um að draga úr kolabrennslu, losun metangass og eyðingu frumskóga.

Skipulögð mótmæli fóru fram víða um heim í dag, meðal annars í London, Sviss og Suður-Afríku.
Eins og fram kom í fréttum í gær kom baráttukonan Greta Thunberg fram á öðrum mótmælum í Glasgow í gær þar sem hún sagði COP26 hafa mislukkast þar eð engar afgerandi aðgerðir hefðu verið samþykktar.
Meðal málefna sem eru til umræðu á ráðstefnunni eru áköll um að halda hlýnun jarðar í skefjum þar sem meðalhitastig fari ekki meira en 1,5 gráður upp fyrir það sem var fyrir upphaf iðnvæðingar.