Fótbolti

Þrír liðsfélagar Hjartar sáu rautt í tapi Pisa

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Hjörtur Hermannsson skrifar undir samninginn við Pisa.
Hjörtur Hermannsson skrifar undir samninginn við Pisa. mynd/Pisa

Þrír liðsfélagar Hjartar Hermannssonar fengu að líta rauða spjaldið í leik Cittadella og Pisa í ítölsku B-deildinni í fótbolta í kvöld.

Hjörtur hóf leik í vörn Pisa sem eygði þess von að tylla sér á topp Serie B með sigri á Cittadella í kvöld.

Ungverski landsliðsmaðurinn Adam Nagy, sem leikur á miðju Pisa, fékk að líta beint rautt spjald á 39.mínútu og róðurinn því orðinn þungur fyrir gestina.

Heimamenn í Cittadella voru fljótir að nýta sér liðsmuninn og ná forystunni með marki á 47.mínútu.

Eftir klukkutíma leik urðu hlutirnir enn erfiðari fyrir Hjört og félaga þegar Idrissa Toure fékk að líta rauða spjaldið. Það var svo til að bæta gráu ofan á svart þegar Lorenzo Lucca, sóknarmaður Pisa, fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt á 68.mínútu.

Pisa lék því síðustu rúmlega tuttugu mínúturnar með aðeins átta leikmenn inn á vellinum en Hirti var skipt af velli á 86.mínútu og skömmu síðar gulltryggðu heimamenn sér sigurinn með marki í uppbótartíma.

Lokatölur 2-0 fyrir Cittadella og Pisa því áfram í þriðja sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliði Brescia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×