Um 1.227 starfsmenn sem starfa við uppeldi og menntun leikskólabarna hafa lokið annarri uppeldismenntun, til dæmis grunnskólakennaranámi, þroskaþjálfun, diplómanámi í leikskólafræðum eða leikskólaliðanámi.
Töluverð fjölgun hefur orðið í þessum hóp síðustu ár, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar.
Um 55 prósent starfsmanna leikskóla var ófaglærður.
Starfsmenn leikskóla í desember árið 2020 voru 6.777 talsins og hafði fjölgað um 5,7 prósent frá fyrr ári. Leikskólabörnum fjölgaði um 0,7 prósent. Stöðugildi voru 5.898 og hafði fjölgað um 5 prósent.
Eftirfarandi kemur einnig fram á vef Hagstofunnar:
Minni starfsmannavelta
Starfsmannavelta í leikskólum á milli áranna 2019 og 2020 var 20% og hefur ekki verið minni frá því að Hagstofan hóf að birta gögn um starfsfólk í leikskólum árið 1999. Eru þá bornir saman þeir starfsmenn sem störfuðu í leikskólum þann 1. desember 2019 og voru enn við störf á sama tíma árið 2020. Undanfarin ár hefur starfsmannaveltan verið 23-27% á milli ára.
Fleiri eldri leikskólakennarar
Tæplega fimmtungur leikskólakennara (18,5%) var 60 ára og eldri og hafði leikskólakennurum á þessum aldri fjölgað meira en leikskólakennurum í yngri aldurshópunum. Tæpur fimmtungur leikskólakennara var undir fertugu (19,2%) en rúm 62% leikskólakennara voru á aldrinum 40-59 ára.
Sé horft til allra starfsmanna leikskóla voru leikskólakennarar meira en helmingur allra starfsmanna leikskóla sem voru 60 ára og eldri en þeir voru innan við fimmtungur starfsfólks á aldrinum 30-39 ára og enn lægra hlutfall yngra starfsfólks.
Aldrei hafa fleiri karlar starfað á leikskólum
Karlkyns starfsmenn í leikskólum voru 546 í desember 2020, eða 8,1% starfsfólks, og hafa aldrei verið fleiri. Karlkyns starfsmönnum fjölgaði um 18,2% frá desember 2019.
261 leikskóli starfandi
Í desember 2020 var 261 leikskóli starfandi sem er fjölgun um þrjá frá fyrra ári. Sveitarfélögin ráku 217 leikskóla en 44 leikskólar voru reknir af öðrum aðilum.