Lífið

Qu­antum Leap-stjarnan Dean Stockwell látin

Atli Ísleifsson skrifar
Dean Stockwell árið 2004.
Dean Stockwell árið 2004. Getty

Bandaríski leikarinn Dean Stockwell, sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt í þáttunum Quantum Leap, er látinn, 85 ára að aldri.

Talsmaður fjölskyldu hans segir hann hafa andast á heimili sínu síðastliðinn sunnudag.

Leiklistarferill Stockwells spannaði rúma sjö áratugi, en hann varð heimsfrægur fyrir hlutverk sitt sem Al Calavicci aðmíráll í vísindaskáldsöguþáttunum Quantum Leap. Birtist hann í öllum 97 þáttunum sem framleiddir voru á árunum 1989 til 1993.

Þættirnir voru tilnefndir til fjölmargra Emmyverðlauna og árið 1990 vann Stockwell til Golden Globe verðlauna sem besti karlleikari í aukahlutverki.

Hinn 67 ára Scott Bakula, sem lék á móti Stockwell í þáttunum, minnist félaga síns á samfélagsmiðlum og nefnir þar sérstaklega gott vinnusiðferði Stockwells. Þá segir hann Stockwell alltaf hafa átt auðvelt með að fá sig til að hlæja.

Stockwell birtist einnig í myndinni Blue Velvet frá árinu 1986 og þá vann hann til verðlauna á kvikmyndahátíðinni í Cannes bæði árið 1959 og 1962. Þar að eini var hann tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt í myndinni Married to the Mob árið 1988 þar sem hann lék meðal annars á móti Michelle Pfieiffer.

Stockwell fékk heilablóðfall árið 2015 og tveimur árum síðar tilkynnti eiginkona hans Joy að hann hefði sagt skilið við leiklistina. Hann lætur eftir sig eiginkonuna Joy og tvö börn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×