Magdeburg vann nauman eins marks útisigur á Göppingen í kvöld, lokatölur 24-25. Ómar Ingi fór hamförum í liði Magdeburg en ásamt því að skora níu mörk þá lagði hann upp önnur fimm til viðbótar.
Þá skoraði Gísli Þorgeir Kristjánsson eitt mark í liði gestanna svo alls voru tíu íslensk mörk í leiknum.
Lemgo vann frábæran þriggja marka útisigur á Rhein Neckar Löwen, lokatölur 30-33. Bjarki Már átti magnaðan leik í liði Lemgo og skoraði 12 mörk í leiknum. Á hinum enda vallarins skoraði Ýmir Örn Gíslason eitt mark ásamt því að leggja upp annað.

Þá skoraði Elvar Örn Jónsson þrjú mörk í tapi Melsungen fyrir Minden, lokatölur 25-29. Að lokum skoraði Teitur Örn Einarsson þrjú mörk ásamt því að leggja upp eitt í sigri Flensburg á Füchse Berlin, 28-23.
Magdeburg er sem fyrr á toppi deildarinnar en liðið hefur unnið alla 10 leiki sína til þessa í deildinni. Flensburg situr í 4. sæti með 12 stig, Lemgo er í 7. sæti með 10 stig. Löwen er í 8. sæti með 9 stig og Melsungen er í 11. sæti með átta stig.