Erlent

FW De Klerk er allur

Atli Ísleifsson skrifar
FW de Klerk og Nelson Mandela hlutu í sameiningu Friðarverðlaun Nóbels árið 1993.
FW de Klerk og Nelson Mandela hlutu í sameiningu Friðarverðlaun Nóbels árið 1993. Getty

Frederik Willem de Klerk, fyrrverandi forseti Suður-Afríku og síðasti hvíti maðurinn til að leiða landið, er látinn, 85 ára að aldri.

Í frétt BBC segir að de Klerk hafi gegnt lykilhlutverki í þeirri vegferð landsins að koma á lýðræði í landinu. Talsmaður de Klerk segir að hann hafi greinst með krabbamein fyrr á árinu.

De Klerk gegndi embætti forseta Suður-Afríku frá september 1989 til maímánaðar 1994.

Árið 1990 tilkynnti de Klerk að hann myndi sleppa Nelson Mandela, helsta baráttumanni landsins gegn aðskilnaðarstefnunni, úr fangelsi. Mandela tók svo við embætti forseta af de Klerk að loknum kosningum í landinu 1994.

De Klerk tók við formennsku í Þjóðarflokknum af PW Botha í febrúar 1989 og ári síðar tilkynnti hann að hann hann myndi aflétta banni við öðrum flokkum í landinu, þeirra á meðal ANC-flokki Mandela. Breytingarnar átt þátt í að binda enda á aðskilnaðarstefnunni í landinu. 

De Klerk og Mandela hlutu í sameiningu Friðarverðlaun Nóbels árið 1993 fyrir baráttu sína fyrir friði í landinu.

Eftir kosningarnar 1994 tók Mandela við embætti forseta og de Klerk varð annar tveggja varaforseta landsins. Mandela lést árið 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×