Viðskipti innlent

Sprenging í miða­sölu á tón­leika og kvik­mynda­sýningar

Eiður Þór Árnason skrifar
Miðasala var góð í október þrátt fyrir takmarkanir og kröfu um hraðpróf.
Miðasala var góð í október þrátt fyrir takmarkanir og kröfu um hraðpróf. Vísir/Vilhelm

Greiðslukortavelta nam rúmum 94 milljörðum króna í október og jókst um 35% samannborið við sama tímabil árið 2020. Veltan stóð nánast í stað frá því í september síðastliðnum.

Sprenging er milli ára í innlendri kortaveltu tengdri tónleikum, leikhúsum, kvikmyndasýningum og viðburðum. Velta í flokknum nam 1.089 milljónum króna í október samanborið við 61 milljón króna í október 2020, þegar samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldsins voru fyrirferðarmiklar.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar en inn í tölunum er samanlögð innlend og erlend kortavelta í flokknum verslun, þjónusta, opinber gjöld og úttektir á reiðufé.

Greinilega má sjá toppa í miðasölu á tónleika og aðra viðburði í kringum september á hverju ári en hún fór síðar af stað þetta árið þegar vinsælustu tónleikarnir fóru í sölu í byrjun október.

Rannsóknarsetur verslunarinnar

Að sögn Rannsóknarseturs verslunarinnar bendir innlend kortavelta til þess að miðasala á jólatónleika hafi aftur náð sér á strik eftir mikinn skell í fyrra.

Nær engin velta var í flokknum þegar samkomutakmarkanir stóðu sem hæst í apríl og nóvember 2020. Hún er nú að nálgast toppinn frá september 2018.

Tífalt meiri ferðatengd velta

Heildar kortavelta Íslendinga hérlendis nam 79,6 milljörðum króna í október og var 16,9% hærri en í október í fyrra og 20,1% hærri en í október 2019. Veltan jókst um 6% á milli mánaða.

Velta skiptist nokkuð jafnt á milli verslunar og þjónustu, 54% kortaveltu Íslendinga hérlendis fóru í verslun og 46% í þjónustu.

Kortavelta í flokknum ferðaskrifstofur og skipulagðar ferðir hefur dregist saman um rúm 17% á milli mánaða en velta í flokknum er rúmlega tífalt hærri en hún var á sama tíma í fyrra og er nú 1% hærri en árið 2019.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×