Innlent

Stærsta árlega herferð Amnesty farin af stað

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ciham Ali fæddist í Los Angeles en ólst upp í Erítreu og átti sér stóra drauma. Hún var stað­ráðin í að verða fata­hönn­uður þegar hún yxi úr grasi. Draumar hennar urðu hins vegar að engu þegar hún var 15 ára gömul.
Ciham Ali fæddist í Los Angeles en ólst upp í Erítreu og átti sér stóra drauma. Hún var stað­ráðin í að verða fata­hönn­uður þegar hún yxi úr grasi. Draumar hennar urðu hins vegar að engu þegar hún var 15 ára gömul.

Í gær, fimmtudaginn 18. nóvember, ýtti Íslandsdeild Amnesty International úr vör Þitt nafn bjargar lífi, stærstu árlegu mannréttindaherferð í heimi. Markmiðið er að safna undirskriftum í þágu þolenda mannréttindabrota og skora á stjórnvöld víða um heim að láta tafarlaust af brotunum.

Í fyrra sendu einstaklingar um heim allan 4,5 milljónir bréfa, korta, smáskilaboða og undirskrifta í þágu tíu þolenda mannréttindabrota. Á Íslandi söfnuðust rúmlega 70.000 undirskriftir.

Í ár er einnig lögð áhersla á mál tíu þolenda. Þar á meðal er mál Chiam Ali. Hún fæddist í Los Angeles en ólst upp í Erítreu. Hún var aðeins 15 ára þegar hún hvarf sporlaust. Stjórnvöld í Erítreu eru talin hafa numið hana á brott í hefndaraðgerð gegn föður hennar, sem grunaður var um aðild að valdaránstilraun. Síðan eru liðin níu ár. Erítrea er alræmd fyrir að halda fólki föngnu í gámum neðanjarðar þar sem það þarf að þola miklar öfgar í hita og kulda.

Óttast er að Chiam sé haldið fanginni í slíku neðanjarðarfangelsi. Í gámi sem grafinn er í jörð. Til að minna á þessa skelfilegu prísund höfum við komið fyrir gulum gámi á Skólavörðuholti, þar sem lesa má um mál hennar og fleiri þolenda mannréttindabrota. Hægt verður að ganga inn í gáminn, fá þar tilfinningu fyrir aðstæðum — auk þess sem hægt verður að skrifa þar undir ákall til stjórnvalda til að krefja þau um að láta af mannréttindabrotunum.

Í tilkynningu frá Íslandsdeild Amnesty segir að Íslendingar búi við fjölmörg forréttindi. 

„Það veldur því að mál sem þessi geta virst okkur fjarlæg og jafnvel óviðkomandi. Í herferðinni í ár viljum við vekja almenning til umhugsunar um hvernig hending ein getur staðið á milli þess að fá að njóta mannréttinda og ekki. Til dæmis í hvaða landi þú fæðist eða af hvaða uppruna þú ert. Stundum þarf ekki annað en að vera á röngum stað á röngum tíma.“

Lag átaksins í ár er hið þjóðþekkta „Rangur maður“, sem hljómar undir átakanlegu myndefni af mannréttindabrotum. Um leið setjum við sakleysislegan texta í algerlega nýtt samhengi og færum þennan fjarlæga veruleika nær okkur. Spurningin í textanum „Af hverju get ég ekki lifað eðlilegu lífi?“ fær algerlega nýja merkingu.

„Þitt nafn bjargar lífi er sönnun þess að í krafti fjöldans er unnt að umturna lífi fólks sem sætir grófum mannréttindabrotum. Samtakamátturinn hefur stuðlað að frelsun samviskufanga, náðun dauðadæmdra fanga, mannúðlegri löggjöf og stöðvun pyndinga,“ segir í tilkynningunni.

„Næstu daga og vikur munum við halda þessari mikilvægu baráttu áfram og safna undirskriftum, aðallega á netinu, en einnig á almenningsstöðum. Til að minna á átakið verða ýmsar áberandi byggingar baðaðar gulu ljósi sem er litur Amnesty International og táknar vonarljós þolenda mannréttindabrota.“

Hér má lesa meira um herferð Amnesty.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×