Erlent

Grímunotkun meira en helmingar líkurnar á smiti

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Grímurnar gagnast enn og ekki síst þar sem fáir hafa verið bólusettir.
Grímurnar gagnast enn og ekki síst þar sem fáir hafa verið bólusettir. Getty/Dipendra Rokka

Grímunotkun er áhrifamesta lýðheilsuráðstöfunin sem gripið hefur verið til í þeim tilgangi að takmarka dreifingu kórónuveirunnar. Þetta eru niðurstöður samantektar vísindamanna á meira en 30 rannsóknum víðsvegar í heiminum.

Samkvæmt samantektinni dregur grímunotkun úr tíðni nýrra smita sem nemur 53 prósentum. Fjarlægðarmörk, sem víðast hvar hafa verið tveir metrar, fækka smitum um 25 prósent og handþvottur um 53 prósent en síðastnefnda tölfræðin þykir ekki marktæk vegna þess hversu fáar rannsóknir tóku til handþvottar.

Ekki var hægt að komast að niðurstöðu um aðrar aðgerðir á borð við sóttkví, einangrun, útgöngubann og lokun landamæra, skóla og vinnustaða vegna þess hversu ólíkar þær rannsóknir voru sem náðu til þeirra aðgerða.

Samantektin var birt í British Medical Journal en þar sagði meðal annars að niðurstöðurnar bentu til mikilvægi þess að viðhafa áfram grímuskyldu, fjarlægðarmörk og handþvott samhliða því að þjóðir væru bólusettar.

Bólusetningarnar væru áhrifaríkar en ekki 100 prósent vörn.

250 milljón manns hafa nú smitast af Covid-19 á heimsvísu og á hverjum þremur mánuðum greinast 50 milljónir með kórónuveiruna, SARS-CoV-2. Þúsundir deyja á degi hverjum.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×