Innlent

Geta ekki sótt alla þá tvö hundruð hjúkrunar­fræðinga sem þarf til út­landa

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir tók við embætti forstjóra Landspítala tímabundið í byrjun október eftir að Páll Matthíasson sagði af sér.
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir tók við embætti forstjóra Landspítala tímabundið í byrjun október eftir að Páll Matthíasson sagði af sér. vísir/vilhelm

Land­spítalinn þarf um tvö hundruð nýja hjúkrunar­fræðinga til að geta sinnt starfi sínu eðli­lega sögn for­stjóra spítalans. Vonast er til að hægt verði að sækja starfs­fólk til Norður­landanna til að létta undir á­laginu.

Þetta mun þó ekki leysa mönnunar­vandann enda ekki hægt að ráða inn 200 nýja er­lenda starfs­menn inn á spítalann í einu.

Sýnd veiði en ekki gefin

Land­spítalinn er kominn í við­ræður við nor­rænar ráðningar­skrif­stofur, sem ganga vel.

„En þetta er náttúru­lega bara, eins og gefur að skilja, sýnd veiði en ekki gefin vega þess að hjúkrunar­fræðingar eru eftir­sótt vinnu­afl ekki bara hér á Ís­landi heldur líka í öðrum löndum,“ segir Guð­laug Rakel Guð­jóns­dóttir, for­stjóri Land­spítalans.

Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunin hefur beðið vest­ræn ríki sér­stak­lega um að vera ekki að laða til sín hjúkrunar­fræðinga og annað fag­fólk frá öðrum heims­álfum.

„Það er ná­kvæm­lega þess vegna sem við gerum það að leita á nor­ræna ráðningar­skrif­stofu en ekki annað. Vegna þess að við skiljum mjög vel þetta að vera ekki að sækja hjúkrunar­fræðinga í löndum þar sem er skortur á hjúkrunar­fræðingum og launin tölu­vert mikið lægri og vera að kippa fótunum undan því heil­brigðis­kerfi,“ segir Guð­laug.

Landspítalinn hefur ítrekað sent frá sér neyðarköll vegna mikils álags. Guðlaug Rakel segir vanta 200 nýja hjúkrunarfræðinga svo spítalinn geti starfað eðlilega.Vísir/Vilhelm

Hún segir al­geran skort á fag­lærðu fólki á Ís­landi og að þess vegna sé leitað út. Það þurfi tvö hundruð nýja hjúkrunar­fræðinga til að spítalinn geti sinnt verk­efnum sínum eðli­lega.

Verða að kunna íslensku

„Og það að fara og ráða í gegn um ráðningar­skrif­stofu er­lendis frá fyllir aldrei upp í þann kvóta ef maður getur orðað það þannig - bara alls ekki. En það myndi hjálpa okkur sannar­lega,“ segir Guð­laug.

Enda sé ekki hægt að taka á móti svo mörgum er­lendum ný­liðum í einu; þeir þurfi að fara í gegn um á­kveðið ferli til að fá hjúkrunar­leyfi á Ís­landi og læra ís­lensku til að mega starfa á spítalanum.

„Þú verður að skilja sjúk­lingana, númer eitt, tvö og þrjú. Og þú þarft að geta gert þig skiljan­legan á móður­málinu, það er nú þannig. Og við gerum kröfu um það að hjúkrunar­fræðingar hafi lág­marks­kunn­áttu í ís­lensku.“


Tengdar fréttir

Nokkrir hafa sagt upp á Landspítala í dag vegna álags

Nokkrir hjúkrunarfræðingar á bráðadeild hafa sagt upp á Landspítala í dag vegna álags. Landspítalinn sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem hann vakti athygli á miklu álagi á spítalanum sem sérstaklega birtist almenningi á bráðamóttökunni í Fossvogi. 

Neita að hafa hafnað plássum líkt og þingmenn halda fram

Heilbrigðisráðuneytið segir fullkomlega úr lausu lofti gripið að Hrafnista hafi viljað og geti tekið við á annað hundrað öldruðum. Sömuleiðis að staðið hafi á ráðuneytinu að semja við Heilsuvernd um á þriðja hundrað hjúkrunarrýma. Hvoru tveggja sé rangt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×