Eitt er víst, við deyjum öll. Og ef við erum heppin fáum við að eldast og verða gömul. Lífið er allskonar og mörg okkar veikjast eða slasast á lífsleiðinni. Þegar það gerist njótum við umhyggju, hjúkrunar og lækninga fjölmargra fagstétta og einstaklinga.
Ein þessara stétta eru sjúkraliðar. Stéttin sem gegnir lykilhlutverki í heilbrigðiskerfinu. Við sinnum nærhjúkrun og erum því mjög nálægt þeim sem þurfa aðstoð á erfiðustu stundum lífsins. Af faglegri umhyggju og alúð meta sjúkraliðar líðan sjúklinga og daglegt ástandi þeirra, veita þeim viðeigandi aðstoð við athafnir daglegs lífs og styðja þá til að auka sjálfsbjargargetu sína.
55 ára
Sjúkraliðafélag Íslands var stofnað sem fagfélag þann 21. nóvember 1966. Menntun og starf sjúkraliðastéttarinnar hefur tekið miklum breytingum síðan fyrstu sjúkraliðarnir voru útskrifaðir. Þörfin fyrir sjúkraliða mun aukast næstu árin enda er þjóðin að eldast og lífstílstengdir sjúkdómar eru í sókn. En skortur á sjúkraliðum snýst ekki bara um fjölda þeirra, heldur einnig um að þeim sé gert kleift að nýta kunnáttu sína og færni, samhliða breyttu starfsumhverfi og þróun starfa við hjúkrun.
Í samstarfi með öðrum fagstéttum vinna sjúkraliðar innan sjúkrahúsa, hjúkrunarheimila, heilsugæslunnar og í heimahjúkrun. Þar stöndum við vaktina á tímum Covid, alla daga allan sólarhringinn og alltaf þegar á þarf að halda. Í raun er fátt sem er sjúkraliðum óviðkomandi, við sinnum fólki allt æviskeiðið. Okkar markmið er ykkar vellíðan og nærhjúkrun. Sjúkraliðar eru í liði með þér, allt fram í andlátið.
Höfundur er formaður Sjúkraliðafélags Íslands.