Innlent

Fjögurra til átta stiga hiti í dag

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Líklegt má telja að þessi álft, sem og aðrar sem halda til við Reykjavíkurtjörn, geti fengið sér sundsprett í tjörninni í dag. Hitinn verður nefnilega yfir frostmarki og aðstæður til tjarnarsunds því með besta móti.
Líklegt má telja að þessi álft, sem og aðrar sem halda til við Reykjavíkurtjörn, geti fengið sér sundsprett í tjörninni í dag. Hitinn verður nefnilega yfir frostmarki og aðstæður til tjarnarsunds því með besta móti. Vísir/Vilhelm

Búast má við suðvestanátt í dag, yfirleit tíu til fimmtán metrum á sekúndu. Hvassast verður á norðanverðu landinu og á Öræfum, um fimmtán til tuttugu metrar, en snjókoma til fjalla. Ökumenn á Öxnadalsheiði gætu þá lent í vandræðum vegna hríðarveðurs. Á Austurlandi verður skýjað en úrkomulítið og hiti á landinu á bilinu fjögur til átta stig.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Þar segir að á morgun megi búast við svipuðu veðri með hvassri suðlægri átt og rigningu vestan- og sunnanlands, en slyddu til fjalla. Þurrara verður á Austurlandi og hiti breytist lítið.

Á þriðjudag verður þá mun hægari norðlæg átt með éljum víða, en minni úrkomu á suðausturhluta landsins. Þá kólnar í veðri.

Í framhaldinu er spáð umhleypingum með slyddu eða snjókomu víða um land og kólnandi veðri.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Mánudagur:

Suðvestan 13-20 m/s og rigning, hvassast NV-til og með SA-ströndinni, en úrkomulítið A-lands. Hiti 3 til 8 stig. Hægari og skúrir eða él V-til um kvöldið og kólnar.

Þriðjudagur:

Snýst í norðan 8-13 m/s með snjó- eða slydduéljum á N-verðu landinu og rignningu eða snjókomu sunnantil. Hiti yfirleitt kringum frostmark, en 0 til 4 stig við suðurströndina.

Miðvikudagur:

Hvöss norðanátt með snjókomu eða éljum í fyrstu, en lægir smám saman og léttir til, fyrst V-lands. Frost 0 til 8 stig, kaldast inn til landsins.

Fimmtudagur:

Suðlæg átt með rigningu eða snjókomu víða. Norðlægari seinnipartinn við éljum fyrir norðan, en léttir til fyrir sunnan. Fremur svalt í veðri.

Föstudagur:

Norðlæg átt, dálítil él á víð og dreif og talsvert frost um land allt.

Laugardagur:

Útlit fyrir ákveðna norðanátt með éljum á norðan- og austanverðu landinu, en þurrt að kalla suðvestantil. Hiti breytist lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×