Áslaug Arna segir að ferillinn liggi ekki nákvæmlega fyrir enda óljóst hvort að um vistheimili sé að ræða eða einfaldlega fósturheimili. Það verði því að fara fram nákvæm könnun á málinu innan ráðuneyta.
„Þess vegna viljum við setja þetta í þennan farveg. Til að vita hvernig skilgreiningin á þessu heimili í rauninni var. Við erum auðvitað nýbúin að klára mikla vinnu varðandi greiðslu sanngirnisbóta fyrir þá sem urðu varanlega fyrir skaða á stofnunum fyrir fötluð börn,“ segir Áslaug Arna.
Ítrekar að tekið verði á málinu
Áslaug ítrekar að tekið verði á málinu og sett verði í forgang að finna út hvernig hægt er að svara ákallinu. Það ríki samstaða innan ríkistjórnarinnar og til standi að reyna að komast að niðurstöðu eins fljótt og unnt er. Hún segir miður að heyra að fólk hafi rekist á veggi innan kerfisins.
„Við munum auðvitað reyna að flýta þeirri vinnu og það er miður að heyra að fólk hafi reynt og rekist á veggi í kerfinu. Lögin sem til voru um vistheimili, það var ekki heimild í þeim til að kanna aðstæður á einkaheimilum fólks þar sem börn voru vistuð. Það er spurning hvort Hjalteyri falli í einhvern nýjan flokk sem hefur ekki verið brugðist við áður. Þannig að þetta gæti verið stærra verkefni en einungis varðandi þetta tiltekna mál,“ segir Áslaug Arna.
Áslaug var í viðtali í Reykjavík síðdegis en viðtalið má heyra í heild sinni hér að neðan.