Þau svör fegnust frá Landspítala í dag að engar upplýsingar verði veittar um málið að svo stöddu. Málið snýr að dauðsföllum sex sjúklinga sem lögregla telur að hafi borið að með ótímabærum og saknæmum hætti en auk þess eru fimm önnur dauðsföll til skoðunar. Skúli er talinn hafa skráð þessa einstaklinga í lífslokameðferð að tilefnislausu.
Öll þessi dauðsföll komu upp á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fréttastofu til að ná tali af forstjóra stofnunarinnar frá því að málið kom fyrst upp í febrúar hefur það ekki borið árangur og vísar hann nú alfarið á almannatengil í þessum efnum.
Landlæknir óskaði í gær eftir gögnum frá lögreglu og fundaði með stjórnendum Landspítala í dag.
Styðja félagsmann sinn
Forsvarsmenn Læknafélags Íslands gáfu ekki kost á viðtali í dag en sögðu í skriflegu svari ætla að styðja félagsmann sinn eins og því beri. Hins vegar sé óvissa sem fylgi langri málsmeðferð bagaleg fyrir alla.
Fréttastofa greindi frá því í gær að Landspítalinn hafi ekki haft vitneskju um hversu umfangsmikil rannsóknin er á hendur Skúla Tómasi fyrr en fréttir af henni birtust í gær. Hann hefur að undanförnu starfað á Landspítala.
Þá sagði Alma D. Möller landlæknir í samtali við fréttastofu að embættið hafi heldur ekki verið meðvitað um öll þessi tilfelli. Óskað hafi verið eftir upplýsingum frá lögreglu um leið og fréttir af málinu birtust.