Samkvæmt uppfærðri tilkynningu Lögreglunnar á Suðurlandi vinna björgunarsveitir frá Vík, Kirkjubæjarklaustri og úr Álftaveri á vettvangi slyssins.
Um er að ræða nokkuð umfangsmikið slys en af bifreiðunum fimm valt ein og kviknaði í annarri. Samt sem áður eru allir þeir sem lentu í slysinu komnir í skjól og undir hendur heilbrigðisstarfsmanna.
„Áverkamat hljóðar upp á að þeir séu allir „grænir“ og áverkar minniháttar,“ segir í tilkynningu lögreglu.
Þá segir að lögreglumenn séu við rannsókn á slysstað og að búast megi við umferðartöfum við slysstað.
Að lokum bendir lögreglan á að mikil hálka sé víða um Suðurland og biðlar til fólks að fara varlega og haga akstri sínum eftir því.