Viðskipti innlent

Fimm­tíu milljarða við­snúningur í við­skipta­jöfnuði

Eiður Þór Árnason skrifar
Hrein staða við útlönd var jákvæð um 41,1% af landsframleiðslu.
Hrein staða við útlönd var jákvæð um 41,1% af landsframleiðslu. Vísir/Hanna

13,1 milljarða króna afgangur var á viðskiptajöfnuði við útlönd á þriðja ársfjórðungi. Það er 50 milljarða króna betri niðurstaða en ársfjórðunginn á undan og 12,5 milljarða króna betri en á sama fjórðungi árið 2020. 31,1 milljarða króna halli var á viðskiptajöfnuði við útlönd á öðrum ársfjórðungi 2021.

Halli á vöruskiptajöfnuði var 47,4 milljarða króna en 60,3 milljarðar króna afgangur var af þjónustujöfnuði. Þetta kemur fram í bráðabirgðayfirliti Seðlabanka Íslands yfir greiðslujöfnuð við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins. 

Í lok þriðja ársfjórðungs var hrein staða við útlönd jákvæð um 1.294 milljarða króna eða 41,1% af vergri landsframleiðslu (VLF). Batnaði hún um 175 milljarða króna eða 5,6% af VLF á fjórðungnum. Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.964 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins en skuldir 3.670 milljörðum.

Munar mest um aukið verðmæti útfluttrar þjónustu

Að sögn Seðlabankans skýrist betri viðskiptajöfnuður aðallega af hagstæðari þjónustuviðskiptum um sem nemur 40,4 milljörðum króna. 

Munar þar mest um 70,5 milljarða króna hærra verðmæti útfluttrar þjónustu en verðmæti innfluttar þjónustu jókst mun minna, eða um 30,1 milljarð króna. Vöruviðskipti voru lakari um sem nemur 15,3 milljörðum króna. Frumþáttatekjur voru 6,5 milljarða króna óhagstæðari og halli rekstrarframlaga jókst um 6,1 milljarð króna.

Hrein fjármagnsviðskipti bættu erlenda stöðu þjóðarbúsins um 89 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi og gengis- og verðbreytingar um 86 milljarða króna. Verð á erlendum verðbréfamörkuðum lækkaði um tæp 1% milli fjórðunga en verð á bréfum á innlendum hlutabréfamarkaði hækkaði um 5,6%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×