Dómari úrskurðaði í dag að Ethan Crumbley, byssumaðurinn, skyldi færður úr fangelsi fyrir ólögráða í fangelsi fyrir fullorðna. Þegar honum voru kynntar ákærurnar í dag lýsti lögmaður hans yfir sakleysi hans.
Þau sem dóu í árásinni voru sextán ára drengur og fjórtán og sautján ára stúlkur. Annar drengur, sem var sautján ára, dó svo af sárum sínum í dag.
Crumbley hóf skothríð sína í Oxford-framhaldsskólanum í Oakland-sýslu skammt norður af Detroit í gær. Það gerði hann með hálfsjálfvirkri skammbyssu sem faðir hans keypti þann 26. nóvember. Kvöldið áður hafði hann tekið upp myndband af sér tala um að myrða samnemendur sína.

AP fréttaveitan hefur eftir Karen McDonald, saksóknara, lögreglan hafi þegar safnað „fjalli“ sönnunargagna sem gefi til kynna að Crumbley hafi skipulagt ódæðið.
Á þriðjudaginn, nokkrum klukkustundum fyrir skothríðina, höfðu foreldrar Crumbley verið kallaði á fund skólastjóra skólans vegna hegðunar drengsins sem vakti áhyggjur starfsmanna. Ekki var gefið upp í dómsal í kvöld hverskonar hegðun það var en Crumbley er sagður hafa verið með byssuna á sér í skólanum.
Saksóknarar sögðu að Crumbley hefði farið inn á salerni með bakpoka og komið út með skammbyssuna í hendinni. Þá hafi hann skotið á samnemendur sína af handahófi. Hann hleypti af rúmlega þrjátíu skotum og var þar að auki með átján skot til viðbótar þegar hann gafst upp fyrir lögregluþjónum, samkvæmt frétt Washington Post.
Verið er að kanna hvort ákæra eigi foreldra Crumbley einnig.