Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar Gildis, fór á fundinum yfir fjárfestingastefnu samtryggingardeildar, sem er um 856 milljarðar króna að stærð, fyrir árið 2022.
Vægi innlendra hlutabréfa í fjárfestingastefnunni fyrir þetta ár var 19 prósent en það hækkar í 21 prósent í stefnunni fyrir næsta ár. Vægi innlendra hlutabréfa í eignasafni nam 24 prósentum í byrjun nóvember og var því töluvert yfir markmiði.
Á móti minnkar Gildi, sem er þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins, vægi fyrirtækjaskuldabréfa, veðskuldabréfa og erlendra skuldabréfa um eitt prósent í hverjum flokki fyrir sig. Lífeyrissjóðurinn eykur hins vegar vægi skuldabréfa með ábyrgð ríkisins um eitt prósent. Vægi þeirra eykst úr 17,5 prósentum í 18,5 prósent.
Á skuldabréfahliðinni má greina áherslubreytingar hjá Gildi frá því fyrir ári síðan. Á sjóðfélagafundi Gildis í nóvember 2020 kom fram að aukin áhersla yrði lögð á veðskuldabréf, og skuldabréf fyrirtækja og banka. Á móti yrði dregið úr vægi skuldabréfa með ríkisábyrgð.
Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár, sem var lagt fram í vikunni, kom fram að hrein fjármögnunarþörf ríkissjóðs á næsta ári næmi um 117 milljörðum króna. Gert er ráð fyrir að stærstum hluta fjárþarfar ríkissjóðs verði mætt með útgáfu ríkisskuldabréfa á innanlandsmarkaði.
Á fundinum núna í nóvember kom einnig fram að uppgreiðslur sjóðsfélagalána, sem náðu hápunkti í október 2020, hefði farið minnkandi á þessu ári og jafnframt hefði verið aukning í nýjum útlánum. Ný sjóðfélagalán námu 15,4 milljörðum á fyrstu níu mánuðum þessa árs samanborið við 14,5 milljarða króna á öllu árinu í fyrra. Mest lánaði Gildi árið 2018 en þá námu ný útlán samtals 22 milljörðum króna.
Gildi er á meðal þeirra þrettán lífeyrissjóða sem ætla að fjárfesta fyrir um 580 milljarða króna milljarða króna í verkefnum sem tengjast hreinni orku og öðrum umhverfisvænum lausnum fram til ársins 2030. Hlutur Gildis í þessum áformum nemur um 95 milljörðum króna sú fjárhæð samsvarar um 8 prósentum af áætlaðri stærð lífeyrissjóðsins.
Í umfjöllun Innherja um þessi mál sagði Davíð Rúdólfsson að sjóðsstjórar þyrftu ávallt að hafa umboðsskyldu sína gagnvart eigendum fjármunanna í huga. Áherslan þyrfti að vera fyrst og síðast á ávöxtun eigna og stýringu á áhættu.
„Það er mikilvægt að halda því til haga að með aðkomu að þessu verkefni CIC erum við hjá Gildi ekki á nokkurn hátt að gefa einhvern afslátt á ávöxtun fjármuna sjóðsins. Þvert á móti þá horfum við til þess að þessar áherslur séu vel til þess fallnar að stuðla að aukinni ávöxtun sjóðfélaga á komandi árum,“ sagði Davíð.
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.