Bretar urðu hlutskarpastir með 52.425 í heildareinkunn. Þar á eftir komu Svíar með heildareinkunn upp á 50.050. Ísland fékk 49.450 í einkunn og var því hársbreidd frá silfrinu.
Íslenska liðið varð einnig í 3. sæti í undankeppninni í fyrradag en heildareinkunnin var mun hærri í dag en á miðvikudaginn. Þá fékk Ísland 47.475 í einkunn.

Í 1. umferð keppti Ísland á dýnu og fyrir stökkin sín þar fékk liðið 16.250 í einkunn, mun hærri en í undanúrslitunum (14.850).
Annað áhald íslenska liðsins var trampólín. Æfingarnar þar skiluðu 15.900 í einkunn sem var nokkuð lægri en í undanúrslitunum (16.300).

Í lokaumferðinni var komið að dansinum. Fyrir hann fékk íslenska liðið 17.300 í einkunn sem skilaði því tímabundið upp í 2. sætið.
Svíar tóku það hins vegar þegar einkunn þess fyrir stökkin komu í hús. Þriðja sætið og brons var því niðurstaðan hjá blönduðu liði Íslands.

Evrópumótinu í hópfimleikum lýkur á morgun þegar úrslitin í fullorðinsflokki fara fram.