Sjá einnig: Foreldrar byssumannsins í Michigan ákærðir
Breska ríkisútvarpið greindi frá því að foreldrarnir, James og Jennifer Crumbley, hafi fundist í felum í kjallara í Detroit. Þau voru handtekin og færð fyrir dómara, sem setti þeim tryggingargjald upp á hálfa milljón dala hvoru, þar sem taldar voru miklar líkur á að þau myndu reyna að flýja, fengju þau að ganga laus fram að réttarhöldum yfir þeim.

Saksóknarar í málinu segja að Ethan, sonur hjónanna, hafi notað byssu föður síns við árásina á skólann sinn. Hann neitar sök í öllum ákæruliðum, líkt og foreldrar hans.
Lögmaður foreldranna segir hjónin hafa ætlað að gefa sig fram við lögregluna í morgun. Fjölmiðlar í Bandaríkjunum greina hins vegar frá því að þau hafi tekið út um fjögur þúsund dollara í reiðufé og slökkt á farsímum sínum, áður en þau náðust.